Óvenju hvasst á Egilsstöðum – Myndir
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 06. feb 2025 15:26 • Uppfært 06. feb 2025 15:44
Tré brotnaði og féll á hús í gamla hverfinu á Egilsstöðum í nótt. Þar hafa ýmsir hlutir fokið en tjónið er almennt lítið. Óvenju hvasst hefur verið þar.
Egilsstaðir eru á opnu svæði og þar myndast því gjarnan síður miklir vindstrengir heldur en inn til dala eða í fjörðum. Samkvæmt veðurmælingum frá Egilsstaðaflugvelli hefur þar að jafnaði verið 20 m/s vindur síðan um klukkan níu í morgun með reglulegum hviðum upp á 35 m/s.
Stærsta tjónið er trúlega tré sem brotnaði í garði við götuna Selás og féll þar á hús. Eins losnuðu þakplötur á húsi í Skógarseli. Við Kleinuna brotnaði fánastöng. Rúða brotnaði í strætóskýli við íþróttahúsið og skilti við tjaldsvæðið.
Sterkur vindstrengur liggur í gegnum iðnaðarhverfið á Egilsstöðum. Þar hafa hlutir færst úr stað en ekki er að sjá teljandi tjón. Vindstrengurinn skellur af afli á lögreglustöðinni þar sem merkingar eru farnar að flagna af.
Þar þurfti að tryggja grindverk í morgun. Varnargirðing í kringum byggingarsvæði Sigurgarðs hefur verið tryggð, en hún hafði áður farið af stað í veðrinu sem gekk yfir Austurland á mánudag. Á þó nokkrum stöðum má sjá rusl sem hefur fokið.
Upp úr hádegi hægði á útköllum björgunarsveita á Austurlandi. Um hálf fjögur var björgunarsveitin Eining kölluð út vegna þakplatna sem voru að fjúka við Ormsstaði.