Fylltist í sýnatöku á klukkutíma
Allir tímar í skimun vegna covid-19 veirunnar á Austurlandi eru uppbókaðir. Um 1000 sýni verða tekin úr Austfirðingum.Austfirðingar virðast hafa verið áhugasamir um skimunina. Opnað var fyrir tímapantanir klukkan 15:00 í dag og á um klukkustund fylltust allir tímarnir.
Skimunin er unnin í samstarfi Heilbrigðisstofnunar Austurlands og Íslenskrar erfðagreiningar, en fyrirtækið vinnur að rannsókn að útbreiðslu veirunnar í samfélaginu.
Því er ljóst að 1000 sýni verða tekin úr Austfirðingum á laugardag og sunnudag, sem er það markmið sem stefnt var að. Samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðisstofnun Austurlands er að svo stöddu ekki útlit fyrir að fleiri sýni verði tekin á svæðinu.