Fyrirtæki geta ekki sent starfsfólk heim í sóttkví án launa

Vinnuveitendur geta hvorki krafist þess að vita hvar starfsfólk heldur sig utan vinnutíma né skikkað það heim án launa eftir heimkomu af höfuðborgarsvæðinu. Slíkar heimildir séu aðeins í höndum sóttvarnayfirvalda.

Eins og Austurfrétt greindi frá í síðustu viku hafa austfirsk fyrirtæki og stofnanir óskað eftir því við starfsfólk, sem var að koma heim af höfuðborgarsvæðinu, að það ynni heiman frá sér fyrstu dagana eftir heimkomu.

Þær óskir byggðu meðal annars á viðvörunum almannavarna um að ekki væri ferðast til og frá höfuðborgarsvæðinu án brýnnar ástæðu og höfð sérstök aðgát eftir heimkomu ef ferð væri farin. Á fimmtudag tilkynnti Alcoa Fjarðaál starfsmönnum að þeir fengju ekki að snúa til vinnu að lokinni borgarferð sem farin væri „án brýnnar ástæðu“ fyrr en eftir 14 daga og yrðu launalausir á meðan.

Atvinnurekendur taka sér opinbert vald

Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs starfsgreinafélags segir slíkar fyrirskipanir ekki standast lög. „Aðeins sóttvarnayfirvöld hafa heimild til að skipa fólki í sóttkví og með aðgerðum sem þessum eru fyrirtæki að taka sér vald sem þau hafa ekki. Þau geta afþakkað vinnuframlag þannig að viðkomandi komi ekki á vinnustaðinn í ákveðinn tíma, en það verður að greiða stafsmanninum laun á meðan.

Ef félagsmenn okkar hafa verið sendir í launalaust leyfi eftir að hafa ferðast innanlands þá viljum við að þeir hafi samband við okkur því við munum aðstoða þá við að innheimta launin.

Atvinnurekendur eiga engan rétt á að vita hvar starfsfólk er í sínum frítíma né hverja það fær í heimsókn. Ef sóttvarnayfirvöld teldu ástæðu til að lýsa ákveðið landssvæði sérstaklega hættulegt þá hefðu þau gert það.

Svona mál koma upp í sérstökum aðstæðum eins og nú þegar verið er að vega og meta hagsmuni. Fyrirtækin taka svona ákvarðanir af góðum hug því þau eru að reyna að verja sitt starfsfólk og viðskiptavini en þau geta ekki tekið sér svona vald.

Við höfum heyrt af nokkrum fyrirtækjum hér á Austurlandi sem hafa sett svona reglur, og reyndar víðar, því við höfum verið í sambandi við fleiri verkalýðsfélög,“ segir Sverrir.

Fjarðaál breytti tilmælunum

Alcoa Fjarðaál hefur breytt sínum reglum eftir athugasemdir verkalýðshreyfingarinnar. „Það var aldrei ætlun fyrirtækisins að hefta ferðaferðafrelsi fólks eða fara í einhverjar aðgerðir sem ekki stæðust lög. Ef fólk ferðast til áhættusvæða og það er metið svo af hjúkrunarfræðingi að þörf sé á sóttkví í kjölfarið til að koma í veg fyrir hættu á að smit berist inn í fyrirtækið þá skerðast ekki launagreiðslur fólks.

Við hvetjum að sjálfsögðu starfsfólk okkar til að fara ekki í ferðalög á þessi svæði nema brýn ástæða sé til líkt og almannavarnir hafa einnig gert,“ segir Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi fyrirtækisins í svari við fyrirspurn Austurfréttar.

Fyrirmælin hefðu mátt vera skýrari

Ákvarðanir fyrirtækjanna hafa meðal annars byggst á tilmælum aðgerðastjórnar almannavarnanefndar Austurlands um að fólk hafi hægt um sig eftir heimkomu af höfuðborgarsvæðinu. Fyrst var talað um 14 daga, en það síðan stytt niður í 7 daga.

Sverrir segir marga hafa skilið þessi tilmæli þannig að verið væri að vísa fólk í sóttkví, þótt síðar hafi verið skýrt nánar að fólki væri ráðlagt að forðast margmenni, gæta að fjarlægð eða nota grímur og vanda hreinlæti. Sá misskilningur hafi aftur vakið upp ágreining um rétt til launa á meðan því stæði.

„Ég hefði óskað þess að kveðið hefði verið skýrar að orði því þetta skapaði misskilning. Lög um laun í sóttkví ná aðeins yfir þá sem yfirvöld skikka í sóttkví. Ef einstaklingar kjósa að vera heima þá eru fyrirtækin ekki skyldug til að borga þeim laun á meðan. Þau fá ekki bætur úr ríkissjóði og einstaklingarnir heldur ekki frá Vinnumálastofnun.“

Skýrt með ferðir erlendis

Annað gildir hins vegar með þá sem koma erlendis frá, enda hafa yfirvöld skipað öllum sem þaðan koma að fara í sóttkví. „Okkar skilningur er sá að þegar sóttvarnayfirvöld hafa skilgreint svæði sem hættusvæði og einstaklingur fer þangað vitandi það þá á hann ekki rétt á launum í sóttkví. Við teljum hins vegar að þeir sem fóru erlendis áður en reglum var breytt 18. ágúst eigi rétt á launum í sóttkví því aðstæður breyttust meðan þeir voru í burtu.“

Sverir segir fólk almennt ágætlega meðvitað um réttindi sín og skyldur í faraldrinum. Yfirvöldum hafi gengið vel að ná til Íslendinga og upplýsingar sem AFL sendi til erlendra félagsmanna í vor virðast hafa skilað sér.

„Það hefur verið merkilega lítið álag á okkur út af ágreiningi um laun í sóttkví. Við höfum fengið til okkar nokkur mál þar sem frjálslega hefur verið farið með uppsagnarfrest en þau eru flest annað hvort leyst eða í ferli.“

Spurningar um friðhelgi einkalífsins

Sverrir bendir á að þau mál sem nú eru að koma upp þar sem farið er fram á upplýsingar um ferðir starfsfólks veki upp þarfar spurningar. „Við sjáum að þessar aðstæður eru farnar að teygja á skilningi okkar á friðhelgi einkalífsins. Við erum með app þar sem fylgst er með ferðum okkar og sóttvarnayfirvöld fá upplýsingar frá greiðslukortafyrirtækjum.

Við vitum að þetta er allt gert í góðri trú og viljum trúa að fagmannlega sé að verki staðið, þannig að aðeins séu sóttar þær upplýsingar sem þarf, en við þurfum að staldra við og huga út í hvaða upplýsingar við erum tilbúin að láta frá okkur. Við viljum öll standa saman að því að ná tökum á þessum faraldri en við megum ekki gera það þannig að friðhelgisréttur okkar skaðist til langframa.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.