Fyrirtækjum gengur illa að ráða fólk þrátt fyrir atvinnuleysi

2008_02_rodmill_2_small.jpg
Mörgum austfirskum fyrirtækjum gengur illa að ráða fólk þrátt fyrir atvinnuleysið á svæðinu. Ein af ástæðunum er talin vera óhentugur opnunartími leikskóla. Sveitarfélögin eru hvött til að endurskoða hann. Atvinnuleysi hefur minnkað á svæðinu.

Þetta kemur fram í bréfi frá Vinnumarkaðsráði sem sent var austfirskum sveitarstjórnum í síðasta mánuði. Þrátt fyrir að um 300 manns séu skráðir án atvinnu á svæðinu eiga fyrirtæki oft í vandræðum með að ráða fólk.

„Skýringin á því er oft sú að ekki fara saman opnunartímar leikskóla og vinnutímar fyrirtækja,“ segir í bréfinu. Því er því beint til sveitarstjórnanna að skoða hvort hægt sé að hafa skólana opna frá klukkan sjö á morgnana.

Í febrúar voru að meðaltali 277 skráðir atvinnulausir eða 4,3%. Það er um 100 manns minna en á sama tíma í fyrra og lítillega færri en í janúar. Atvinnuleysi meðal karla er 3,3% en 5,6% meðal kvenna. Flestir eru skráðir atvinnulausir í Fjarðabyggð, 115 en 99 á Fljótsdalshéraði. Flestir atvinnulausra á Austurlandi eru á aldrinum 20-35 ára.

Fjórtán laus störf voru skráð hjá Vinnumálastofnun á Austurlandi í febrúar. Aðeins á Suðurlandi og á Höfuðborgarsvæðinu eru fleiri laus störf skráð. Þau eru fjórum fleiri en í janúar og tíu fleiri en á sama tíma en í fyrra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar