Fyrrum hafnarverði dæmdar fjórar milljónir fyrir ólögmæta uppsögn
Landsréttur hefur dæmt Vopnafjarðarhrepp til að greiða fyrrum hafnarverði fjórar milljónir króna í skaðabætur fyrir hafa brotið gegn ákvæðum kjarasamnings og stjórnsýslulögum með fyrirvaralausri uppsögn haustið 2015. Rétturinn hækkaði bætur sem manninum höfðu verið dæmdar fyrir héraðsdómi auk þess að snúa við hluta dóms um orlof á yfirvinnu.Í dómunum kemur fram að samskiptaörðugleikar hafnarvarðarins og yfirmanna hans, einkum þáverandi sveitarstjóra, hafi hafist í kjölfar skipulagsbreytingar sem ný sveitarstjórn réðist í að loknum kosningum árið 2014.
Vorið 2015 lá fyrir ákvörðun um nýtt skipurit hreppsins og með því var starf hafnarstjóra fært undir þjónustumiðstöð sveitarfélagsins. Með nýjum ráðningarsamningi var hafnarstjórinn skyldaður til að skipuleggja vinnutíma sinn í samráði við yfirmann. Í dómsorði Landsréttar segir að skipulagsbreytingunum hafi meðal annars verið ætlað að koma böndum á yfirvinnutíma hafnarvarðarins.
Fram að þessum tíma hafði hafnarvörðurinn verið með fastan yfirvinnutíma, 50 tíma á mánuði, en oft unnið meira samkvæmt vinnuskýrslum hans. Eina breytingin sem varð með nýjum ráðningarsamningi var að í honum kom fram að ekki skyldi greiða orlof á þessa föstu yfirvinnutíma.
Meðal krafna hafnarvarðarins var að fá greitt orlof á fasta yfirvinnu fyrir tímabilið frá júní 2013 til apríl 2015 og gerði kröfu um 475 þúsund krónur. Héraðsdómur manninn ekki hafa sannað rétt sinn á því þeim greiðslum en Landsréttur snéri við þeirri niðurstöðu.
Vaxandi deilur
Veigamesti hluti málsins snéri hins vegar að uppsögninni sjálfri. Fyrir dómi bar þáverandi sveitarstjóri að hafnarvörðinn hefði brotið alvarlega af sér í starfi. Hann hefði skráð á sig yfirvinnutíma sem hann hefði ekki unnið, skilað lyklum og sagst vera hættur, ekki mætt til starfa og haft samband við mögulega afleysingamenn og meinað þeim að hlaupa í skarðið.
Hafnarvörðurinn mótmælti þessum fullyrðingum og máli sínu til stuðnings gat hann bent á að frá því hann tók við starfinu 2013 hefði hann aldrei hlotið skriflega áminningu. Síðasti fundur mannanna tveggja var á skrifstofu sveitarstjórans þann 20. október 2015. Að sögn hafnarvarðarins var hann þá búinn með yfirvinnutíma sína og vildi fara í leyfi en var skipað að vera áfram. Að sögn sveitarstjórans hafði hafnarvörðinn vanrækt skyldu sína um að skipuleggja vinnutíma sinn og þar með afleysingu. Óumdeilt er að fundinum lauk með að sveitarstjórinn skrifaði uppsagnarbréf og afhenti hafnarverðinum.
Í gögnum málsins kemur fram að þótt skipulagsbreytingarnar hafi gengið í gegn 1. maí 2015 hafi gengið hægt að ganga frá nýjum samningi við hafnarvörðinn. Það hafi þó verið gert 20. ágúst og samningurinn afturvirkur frá byrjun maí. Sveitarstjórinn bar meðal annars að hafnarvörðurinn hefði alla tíð streist gegn nýju skipulagi og ekki verið tilbúinn að starfa eftir því en hafnarvörðurinn sagði sveitarfélagið ekki hafa skipulagt starf hans með nógu skýrum hætti.
Andmælaréttur ekki virtur
Í kjarasamningum Félags opinberra starfsmanna á Austurlandi (FOSA), sem rak málið fyrir hönd hafnarvarðarins, og stjórnsýslulögum erum ákvæði um að aðeins megi segja upp starfsmanni að undangenginni áminningu og andmælarétti. Hægt sé að víkja starfsmanni tafarlaust frá störfum fyrir alvarleg brot en hann á þá rétt á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri að viðstöddum trúnaðarmanni. Aðeins er hægt að segja starfsmanni upp tafarlaust við skipulagsbreytingar eða hagræðingu. Í dómi héraðsdómi Austurlands segir að ljóst sé að uppsögnin tengist ekki skipulagsbreytingunum þar sem samningur hafi komist á milli deiluaðila, þótt það hafi tekið tíma.
Dómurinn taldi sveitarstjórann ekki hafa gætt að réttindum starfsmannsins, svo sem andmælarétti, né kannað málsatvik nægjanlega. Þá væru aðgerðir vegna vankanta á skráningu vinnutíma harkalegar í ljósi þess að stutt væri frá gildistöku samningsins. Með þessu hefði sveitarstjórinn brotið gegn kjarasamningi og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.
Í héraðsdómi voru hafnarverðinum dæmdar 1,75 milljónir króna í skaðabætur. Hann áfrýjaði dóminum til Landsréttar og lagði fram ný gögn, meðal annars um tekjutap sitt í kjölfar atvinnumissisins. Landsréttur staðfesti að uppsögnin hefði verið ólögleg og hækkaði bæturnar í fjórar milljónir. Þá reiknast dráttarvextir á þá upphæð frá þingfestingu málsins í héraðsdómi í maí 2017.
Hafnarvörðurinn fór einnig fram á miskabætur fyrir ólögmæta meingerð þar sem sveitarstjóri hefði dylgjað um athafnir hans í bréfi til FOSA sem kynni að hafa áhrif á framtíðarmöguleika hans. Á það féllst hvorugur dómurinn.
Þá hefur Vopnafjarðarhreppi verið gert að greiða málskostnað fyrir báðum dómsstigunum, samanlagt um 1,5 milljónir króna.