Fyrrum stjórnarformaður Smiða dæmdur fyrir brot á skattalögum líkt og framkvæmdastjórinn

heradsdomur_austurlands_log_1532625740.gif
Fyrrverandi stjórnarformaður Smiða ehf. var nýverið dæmdur í Héraðsdómi Austurlands í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot á skattalögum og fimmtán milljóna króna sekt. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins var áður dæmdur til sömu refsingar.

Sérstakur saksóknari ákærði mennina tvo síðasta vor fyrir að hafa árin 2009 og 2010 ekki staðið skil á virðisaukaskatti og staðgreiðsluskatti árin 2009 og 2010. Hluti ákærunnar var síðar afturkallaður og við það lækkaði upphæðin sem hvor var kærður fyrir úr 40 milljónum í tuttugu.

Framkvæmdastjórinn játaði brot sitt og var dæmdur skömmu fyrir jól. Stjórnarformaðurinn neitaði hins vegar og vísaði ábyrgðinni á bókhaldinu á framkvæmdastjóra og bókhalda félagsins. Hann hefði aldrei komið nálægt þeim skýrslum sem skilað var inn og reyndust rangar. Þeir hefðu rekið félagið saman og skipt með sér verkum þannig að stjórnarmaðurinn var oftar í hlutverki verkstjóra.

Framkvæmdastjórinn sagði að skattskilin hefðu verið á sína á byrgð en hann reynt að halda stjórnarformanninum upplýstum. Sá hefði frekar verið að „slökkva elda í sambandi við mannskap og redda efni.“

Framkvæmdastjórinn sagði þá hafa ákveðið að nota „takmarkaða fjármuni félagsins“ frekar til að greiða laun en skatta. Von um tekjur fyrir verkefni sem voru í gangi áttu að rétta haginn við.

Dómurinn taldi að verkskiptin leysti hann ekki undan ábyrgð sem stjórnarformann með prókúru. Hann hefði ekkert gert til að sannreyna svör framkvæmdastjórans um að hlutirnir yrðu „í lagi“ á sama tíma og hann vissi að félagið væri fjárvana og skuldaði skatta. Vísað er í dómafordæmi Hæstaréttar um að ábyrgð stjórnarmanna að sjá til þess að félög standi skil á opinberum gjöldum.

Hann var því dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundins fangelsi og til að greiða 15,2 milljónir í sekt innan fjögurra vikna ella sæta átta mánaða fangelsi auk rúmrar milljónar í sakakostnað og málsvarnarlaun.

Smiður ehf. stunduðu verktakastarfsemi á Reyðarfirði. Það var úrskurðað gjaldþrota haustið 2010. Ári áður var það dæmt fyrri ólögmæta uppsögn trúnaðarmanna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar