Fyrst á dagskránni að kynnast samfélaginu

Þór Steinarsson, nýr sveitarstjóri á Vopnafirði, hóf störf hjá sveitarfélaginu í dag. Hann hlakkar til að kynnast staðnum og fólkinu sem þar býr og líst vel á sig í nýju umhverfi.

„Mér líst vel á þetta verkefni. Það er öflugt fólk í sveitarstjórninni, fjárhagsstaða sveitarfélagsins er góð, samfélagið er kraftmikið og það er spennandi að fá að taka þátt í að byggja það upp og efla,“ segir Þór.

Segja má að tilkoma hans hafi borið brátt að, ráðningin var staðfest á sveitarstjórnarfundi í hádeginu á föstudag og tók Þór við störfum í dag. Hann er stjórnsýslufræðingur að mennt og hefur undanfarin sex ár starfað sem aðstoðarmaður sviðsstjóra á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

„Það var gefið í skyn að það væri gott ef ég gæti hafið störf sem fyrst þannig ég gekk frá því á mínum gamla vinnustað að það væri hægt. Hér eru fjölmörg verkefni sem bíða úrlausnar.“

Þór viðurkennir að hann þekki lítið til á Vopnafirði. Afi hans og amma bjuggu hins vegar í Þistilfirði og þar var hann í sveit á sumrin.

„Fyrst á dagskránni er að kynnast samfélaginu og þessum stóra vinnustað, fá yfirsýn yfir helstu verkefni og stöðuna. Síðan fer fjárhagsáætlunarvinna fljótlega í gang. Utan þess eru erindi frá fólki sem bíður að þeirra málum verði sinnt og ég hvet þá sem eiga erindi við okkur að vera óhrædda að leita til mín.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.