Fyrstu sýnin farin suður

Von er á fyrstu niðurstöðum úr skimun Íslenskrar erfðagreiningar og Heilbrigðisstofnunar Austurlands fyrir covid-19 veirunni á mánudag. Ekkert nýtt smit hefur greinst í fjórðungnum síðustu þrjá daga.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands. Eftir sem áður eru sjö einstaklingar með staðfest smit á svæðinu.

Fyrri hluta vikunnar var nokkur bið eftir greiningu sýna en búið er að vinna þann hala upp. Í sóttkví eru 81 og hefur fækkað um 17 frá í gær.

Skimunin hófst í morgun og er á þremur dögum ætlað að taka 1500 sýni. Sýni frá í morgun hafa þegar verið send suður til Reykjavíkur með flugi.

Fyrstu niðurstaðna úr þeim er að vænta á mánudag, jafnvel strax á morgun ef vel gengur. Rannsóknum á sýnunum ætti að vera lokið um eða upp úr miðri næstu viku.

Niðurstöður fyrir hópinn, það er hve margir greinast með smit, verða kynntar þegar þær berast. Einstaklingarnir fá sínar niðurstöður á heilsuvera.is og hringt verður í þá sem reynast með smit.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar