Fyrstu tarfarnir felldir strax eftir miðnætti

Sex leiðsögumenn hafa tilkynnt sig til veiða á fyrsta degi hreindýraveiðitímabilsins sem hófst á miðnætti. Umsjónarmaður veiðanna segir alltaf spennu á fyrsta degi þótt færri séu líklega á ferðinni nú en oft áður.

„Það er alltaf ákveðin spenna fyrsta daginn. Það er þó hætt við að færri séu á ferðinni nú þar sem hann ber ekki upp á helgi. Það eru líkur á að veiðimönnunum fjölgi um næstu helgi,“ segir Jóhann G. Gunnarsson, sérfræðingur á Umhverfisstofnun sem heldur utan um veiðarnar.

Tveir tarfar voru felldir strax upp úr miðnætti á svæði fjögur, norðan í Fjarðarheiði. Búið er að tilkynna um þrjá aðra sem felldir hafa verið það sem af er degi á svæði sex, sunnan Reyðarfjarðar og Grímsár í Skriðdal að Djúpavogshreppi.

Jóhann segir að þoka á fjörðum hafi sett strik í reikninginn hjá veiðimönnum þar en henni hafi létt inn til landsins þegar liðið hefur á daginn. Nokkuð heitt er í veðri eystra sem gæti gert veiðimönnum erfitt fyrir.

Jóhann gengur út frá því að hreindýrin séu væn þar sem veturinn hafi verið snjóléttur og vorið gott. Nú sé meiri snjór í fjöllum en oft áður en það geti verið gott fyrir dýrin sem hafi stöðugt aðgengi að nýgræðingi eftir því sem snjórinn bráðnar.

Alls er heimilt að veiða 1451 dýr í ár, 408 tarfa og 1043 kýr. Veiðar á kúm hefjast 1. ágúst.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar