Gæs aflífuð þar sem áldós sat pikkföst á gogginum á henni
Ung grágæs var fyrir viku aflífuð eftir að hafa fundist illa á sig komin við Andapollinn á Reyðarfirði með áldós pikkfasta á gogginum. Reglulega berast tilkynningar um villt dýr í vanda vegna rusls frá mannfólki.Hálfdán Helgi Helgason, fuglavistfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands, segir að í lok síðustu viku hafi borist tilkynning frá vegfaranda um fugl í vanda. Tilkynningin fór fyrst til sveitarfélagsins Fjarðabyggðar og á þess vegum var farið á vettvang og fyrst reynt að handsama gæsina.
Fuglinn hóf sig hins vegar alltaf til flugs þegar reynt var að nálgast hann. Þess vegna var ákveðið að aflífa dýrið til að lina þjáningar þess þar sem ljóst var að það gæti ekki nærst með dósina fasta á sér.
„Þegar búið var að aflífa fuglinn var ljóst að dósin væri pikkföst á honum. Á dósinni eru hvassar brúnir sem skerast inn í gogginn þannig hún festir fest neðri skolt og tungu. Þetta hefur valið fuglinum gríðarlegum þjáningum,“ segir Hálfdán.
Hann segir um að ræða unga frá í sumar sem hafi verið orðinn vel stálpaður og fleygur. Ólíklegt sé að hann hafi lengi verið með dósina á sér.
Mál sem varða villt dýr í vanda eiga heima hjá lögreglu eða Matvælastofnun og því á að hringja í Neyðarlínuna 112 þegar fólk verður við slíkt. Náttúrustofan kemur inn í málin á síðari stigum eftir atvikum.
„Við fáum tilkynningar reglulega, sérstaklega um hreindýr í girðingadræsum. Þau eiga það til að festa hornin í girðingum sem hefur verið rúllað upp eða ekki haldið við. Sjaldgæfara er að við fáum tilkynningar um fugla þótt við heyrum um þá sem lenda í efnamengun, svo sem frá grút eða olíu.
Atvik eins og þessi eru ekki algeng en það er vont að sjá þau. Að henda svona dós á víðavangi er argasti sóðaskapur.“