Gæsluvarðhald framlengt í tveimur alvarlegum sakamálum austanlands

Lögreglan á Austurlandi hefur óskað eftir og fengið framlengt gæsluvarðhald yfir tveimur einstaklingum sem grunaðir eru um alvarleg brot. Báðir aðilar verða í varðhaldi til loka þessa mánaðar.

Annars vegar er um að ræða lengt gæsluvarðhald vegna aðila á fimmtugsaldri grunaðan um aðild að dauða hjóna í Neskaupstað þann 22. ágúst í sumar. Mun þetta vera í þriðja sinn sem óskað er eftir framlengdu varðhaldi mannsins en ástæðan er að beðið er mikilvægra gagna í málinu erlendis frá.

Hins vegar mun einstaklingur grunaður um hrottafengna líkamsárás á sambýliskonu sína Vopnafirði um miðjan október þurfa að gista fangageymslur fram til 26. þessa mánaðar að minnsta kosti en upphaflega fór lögregla fram á gæsluvarðhald til 4. nóvember.

Að sögn Kristjáns Ólafs Guðnasonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Austurlandi, miðar rannsókn beggja mála vel og rannsóknunum ætti að óbreyttu að geta lokið í báðum málum áður en mánuðurinn er úti.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar