Gæsluvarðhald í Norðfjarðarmáli framlengt um viku

Dómari hefur fallist á kröfu lögreglustjórans á Austurlandi um að einstaklingur, grunaður um að vera valdur að andláti hjóna í Neskaupstað fyrir rúmri viku, verði áfram í gæsluvarðhaldi og einangrun fram til 6. september.

Hjón á áttræðisaldri fundust látin í heimahúsi í Neskaupstað í hádeginu á fimmtudaginn fyrir viku. Í kjölfarið var lýst eftir þeim sem er í haldi og var hann handtekinn í Reykjavík skömmu síðar. Síðasta föstudag var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald og einangrun í viku. Það hefur nú verið framlengt.

Lögreglan veitir ekki nánari upplýsingar um málsatvik eða stöðu rannsóknar að svo stöddu. Í tilkynningu frá í gær segir að rannsóknni miði vel en áfram sé unnið að gagnaöflun og úrvinnslu, svo sem af vettvangi og rafrænum gögnum. Það taki tíma.

Þar kom einnig fram á að dómstólar hefðu fallist á kröfu lögreglustjórans um að sá grunaði gangist undir geðrannsókn. Greint hefur verið frá því í fjölmiðlum að hann hafi um árabil glímt við mikil andleg veikindi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar