„Gagnkvæmur skilningur eykst“

Ungt fólk í Neskaupstað hefur reglulega heimsótt íbúa í Breiðabliki, íbúðir aldraðra og í Egilsbúð mun verða félagsaðstaða fyrir ungmenni og eldri borgara. Hvoru tveggja er tilkomið vegna PLACE-EE, sem er fjölþjóðlegt samstarfsverkefni, svonefnt norðurslóðaverkefni, með það að markmiði að draga úr félagslegri einangrun eldri borgara í dreifbýli.


Verkefnið er í þágu aldraðra í Fjarðabyggð og er samstarfsverkefni sveitarfélaga, háskóla og heilbrigðisstofnanna og styrkt af Evrópusambandinu. Fjarðabyggð er eini þátttakandinn á Íslandi en önnur þátttökulönd eru Írland, Norður-Írland og Svíþjóð.

Mikil einangrun

„Einangrun eldri borgara er orðin mjög mikil í samstarfslöndum okkar og því er frábært tækifæri fyrir Fjarðabyggð að vera vonandi skrefi á undan þessari þróun. Lýðfræðileg þróun er þannig að það verða fleiri eldri borgarar á móti hverri ungri manneskju,” segir Guðrún Lilja Magnúsdóttir, verkefnastjóri hjá Fjarðabyggð.

Hún segir þetta staðreynd sem ekki er hægt að líta fram hjá. Verkefnið stuðlar að því að þróa og innleiða sjálfbærar lausnir sem verða til á hverjum stað fyrir sig.

Markmiðið er að efla félagslega þátttöku og samskipti milli kynslóða og auðvelda öldruðum lífið með ýmsu móti. Ein leið sem farin hefur verið í Fjarðabyggð er að efla tæknikunnáttu eldri borgara.

„Ef þú ert orðin talsvert tæknivæddur þá verður þú síður félagslega einangraður og getur notað tæknina til þess að halda sambandi við fjölskyldu sem býr erlendis eða börnin fyrir sunnan,“ segir Guðrún.

„Þessi einangrun er að mestu sjálfsköpuð. En þegar okkur hefur tekist að „draga fólk út“ þá verður það svo þakklátt og áttar sig á hvað það hefur verið einangrað,“ bætir hún við.

Aðskildir aldurshópar

„Raunveruleikinn í dag er að þessar kynslóðir hafa ekki eins mikil tækifæri til að vera í daglegum samskiptum og tíðkaðist áður fyrr.

Það er hópur eldra fólks sem á hvorki börn eða barnabörn, skilur ekki menningu unga fólksins og veit ekki hvernig á að tala við börn eða unglinga. Mörg börn sem eiga ekki ömmur eða afa nálægt sér og þekkja einfaldlega ekki gamalt fólk.

Samfélagið er duglegt að skilja þessa hópa í sundur. Krakkar eru mest með sínum jafnöldrum, fyrir svo utan foreldra kannski. Fjölskyldur eru líka orðnar fjölbreyttari í dag en þær voru. Það er mögulega ekki í boði að eyða tíma með ömmum og öfum eða eldra fólki yfir höfuð. Þannig getur eldra fólkið einangrast,“ útskýrir Guðrún.

Gagnkvæmur skilningur eykst

Skipuleggjendur verkefnisins komust að því að með því að leyfa eldri borgurum og krökkum að hittast jókst gagnkvæmur skilningur og fordómar minnkuðu. Þau voru að brúa þetta kynslóðabil sem myndast hefur og þar með opna samfélagið.

„Við fengum til dæmis hóp af krökkum úr Verkmenntaskóla Austurlands til að koma í nokkur skipti og hitta eldra fólk sem býr í Breiðabliki. Þau áttu bara sitja með þeim í þrjá tíma í senn, í sex til sjö skipti og fá sér síðan kaffi og með því.

Eldra fólkið kom með tölvurnar sínar, spjaldtölvur eða síma og krakkarnir hjálpaðu þeim að læra á tækin sín. Sumir þurftu til dæmis hjálp við að læra einfalda hluti eins og hvernig ætti að færa hluti á milli staða í tölvunni. Ein kona þarna kunni ekki að kveikja á tölvunni sem hún hefur átt í tíu ár. Allt í einu eru þau síðan komin á Facebook eða geta farið að nota heimabankann sinn, nota Íslendingabók og þess háttar,“ segir Guðrún.

Hún segir að þetta hafi verið það sem þurfti. Einhvern til að setjast niður með eldra fólkinu, vera þolinmóður og gefa sér tíma til að kenna þeim.

„Þetta heppnaðist ótrúlega vel. Þarna var verið að mynda ný tengsl og ný og gagnkvæm vinátta varð til,” segir hún.

Alvöru félagsmiðstöð

„Út frá því sem við erum búin að skoða sjáum við að þetta hefur haft gríðarlega jákvæð áhrif á báða hópa,“ segir Guðrún og bætir við að mikill áhugi sé hjá sveitarfélaginu að nýta og þróa hugmyndafræðina áfram.

Nýja félagsmiðstöðin sem verður í Egilsbúð í Neskaupstað er gott dæmi um það en þar verður aðstaða fyrir eldri borgara og líka unglinga.

„Egilsbúð verður eins raunverulegt félagsheimili og hægt er að hafa, jafnvel enn meira en það var í gamla daga. Eldri borgararnir sjá um sitt starf og eru með sitt svæði og unglingarnir sitt svæði með öllu því sem hentar þeirra áhugamálum en samt verði lögð mikil áhersla á opið flæði milli svæða. Að allir geti flakkað á milli rýma og gert hluti og varið tíma saman, ef fólk vill. Ef einhverjir vilja næði er hægt að loka dyrunum en opnar dyr þýði opið hús.

Guðrún segir að verkefnið hafi haft mikil áhrif á hana sjálfa. „Mín persónulega skoðun er að það á ekki að draga fólk svona mikið í dilka. Það skiptir ekki máli hver þú ert, hvaðan þú kemur eða á hvaða aldri þú ert. Allir eiga að geta varið tíma saman og sameinast í sameiginlegum áhugamálum,” segir Guðrún.

Verkefnið hefur verið kynnt hérlendis bæði innan Fjarðabyggðar og fyrir öðrum íslenskum þátttakendum í norðurslóðaverkefnum auk þess sem það var sérstaklega kynnt á Írlandi.

„Samstarfsaðilum okkar þar fannst mjög gaman að kynna sér hvernig við höfum útfært verkefnið. Fjarðabyggð er dreift samfélag og talsverðar vegalengdir á milli staða og það er einmitt lagt upp með að verkefnið myndi nýtast í dreifðum byggðarlögum eins og okkar, þar sem fólk getur átt erfitt með að sækja sér þjónustu og afþreyingu vegna búsetu,” segir Guðrún að lokum.


Kynslóðir sameinast.  Mynd. Guðrún Lilja Magnúsdóttir



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.