Gagnrýna meirihlutann fyrir seinagang við endurgerð knattspyrnuvallar

Minnihlutinn í bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar lýsir vonbrigðum með að lítið sem ekkert hafi gerst í endurgerð knattspyrnuvallar bæjarins síðan í lok mars. Meirihlutinn telur rétt að stíga varlega til jarðar, nánari athugun á kostnaðarmati hafi bent til að ýmsir liðir væru þar vanáætlanir. Ekki er útlit fyrir að neitt verði úr framkvæmdum á þessu ári.

Samkvæmt fjárhagsáætlun bæjarins fyrir yfirstandandi ár eru ætlaðar 35 milljónir í endurbætur á Garðarsvelli. Framkvæmdina átti að miklu leyti að fjármagna með láni frá Lánasjóði sveitarfélaga.

Bágt ástand vallarins hefur leitt til þess að lítið hefur verið leikið á honum síðustu ár og þrýstingur myndast á að bætt yrði úr. Þess vegna var verkið sett á fjárhagsáætlun og í byrjun árs samþykkt í bæjarstjórn að bjóða út endurnýjum yfirborðs vallarins.

Fyrst tafir vegna mannabreytinga

Þá þegar hafði minnihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks gagnrýnt meirihluta Seyðisfjarðarlistans fyrir seinagang. Inn í þá gagnrýni blandaðist ákvörðun meirihlutans um að segja upp samningi við verkfræðistofuna Eflu um skipulags- og byggingafulltrúa og ráða í staðinn slíkan fulltrúa í fast starf á bæjarskrifstofunum. Meirihlutinn vildi ekki ráðast í útboðið fyrr en fulltrúinn væri fundinn.

Hann fannst og var útboðið auglýst þann 11. febrúar. Aðeins einn aðili sótti útboðsgögn en ekkert tilboð barst. Við eftirgrennslan kom í ljós að verktakinn hafði hugsað sig um tvisvar þar sem hann taldi kostnaðarmatið sem fyrir lá of lágt.

Í kjölfarið var málið skoðað betur og skipulags- og byggingafulltrúa falið að leita eftir tilboðum í einstaka þætti verksins, en þó gerð krafa af bæjarstjóra að áður lægi fyrir heildarkostnaðaráætlun allra verkhluta. Í umræðum í nefndum bæjarsins í byrjun árs var einnig bent, með vísan í samantekt Eflu um framkvæmdina, að hagstæðast væri að bjóða verkið út í einu lagi og reyna að vinna það á sem skemmstum tíma.

Á bæjarstjórnarfundi í byrjun september lagði minnihlutinn fram bókun þar sem lýst er vonbrigðum síðan hafi lítið sem ekkert gerst. Í greinargerð er farið yfir að fulltrúar minnihlutans hafi í nýliðnum ágústmánuði óskað eftir upplýsingum um stöðu framkvæmda við knattspyrnuvöllinn og óskað eftir að málið yrði tekið á dagskrá í bæjarráði. Við þeim beiðnum hafi verið orðið og bæjarstjóri lagt fram greinargerð um stöðu mála.

Vilja ekki lenda í Braggamáli

Í henni er sú forsaga sem áður hefur komið fram rakin. Ítrekað er að kostnaðarmat einstakra verkhluta í verkáætlun Eflu, svo sem akstri jarðefna, hafi verið langt undir kostnaðarmati. Þá hafi verið bent á að hægt væri að fara einfaldari leiðir í efnisvali og framkvæmdinni. Bæjarstjórinn, Aðalheiður Borgþórsdóttir, hvetur til að stigið verði varlega til jarðar, þekkt sé að opinberar framkvæmdir fari fram úr áætlun vegna vanáætlana og nefnir þar til sögunnar Braggann í Nauthólsvík og Vaðlaheiðargöng. Markmiðið sé að forðast allt slíkt.

Bæjarstjórinn lagði því til að kostnaðar- og verkáætlun yrði endurskoðuð í heild og síðan yrði hægt að kalla eftir tilboðum í einstaka verkhluta. Í þetta verði veturinn nýttur og verkinu því seinkað til næsta vors. Áður þarf þó að semja við Knattspyrnusamband Íslands sem leggur fé til verksins og var bæjarstjóra falið að ræða við sambandið.

Í lok greinargerðarinnar hafnar Aðalheiður því að hún eða aðrir í meirihlutanum vilji ekki að framkvæmdin verði að veruleika en mikilvægt sé að íhuga skrefin áður en þau séu stigin. Þá telur bæjarstjórinn gagnrýni á bæjarstarfsmenn fyrir seinagang óréttmæta, bærinn sé undirmannaður og kröfur um afkastagetu oft óraunhæfar, bæði miðað við mannafla og fjármuni.

Lykilatriði að bæjarstjórn standi saman að verkinu

Í bókun minnihlutans frá síðasta fundi bæjarstjórnar er því fagnað að stefnt sé að fullum efndum, enda hafi það ávallt drifið verkið áfram að bæjarstjórnin standi heil að baki verkinu, þótt minnihlutinn hafi stundum tekið frumkvæði þegar hann hafi brostið þolinmæði á undirbúningstímabilinu.

Vilhjálmur Jónsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, lagði fram tvær tillögur á fundinum í tengslum við málið. Annars vegar að gerð yrði úttekt á stjórnun og stjórnsýslu kaupstaðarins. Ætlunin með henni sé að bregðast við töfum á afgreiðslu mála sem meðal annars stafi af undirmönnum bæjarskrifstofanna.

Einnig lagði Vilhjálmur til að fenginn yrði utanaðkomandi aðili til að hafa umsjón með endurgerð vallarins og bæjarstjóra og bæjarráði yrði falið að afla tilboða í þann hluta. Báðar tillögurnar voru felldar, sú seinni á jöfnu þar sem einn fulltrúi meirihlutans sat hjá.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar