Gagnrýnir heimastjórnir að senda fulltrúa á þriggja tíma umhverfisþing í Reykjavík
Heimastjórnir Borgarfjarðar eystra, Djúpavogs og hugsanlega Seyðisfjarðar hyggjast senda sína erindreka á umhverfisþing sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið stendur fyrir í þrjár klukkustundir í Reykjavík í byrjun næsta mánaðar. Fulltrúi Miðflokksins í sveitarstjórn Múlaþings gerir athugasemdir við þær áætlanir enda sé umrætt þing sýnt í beinu streymi.
Umhverfisþing þetta fer fram þann 5. nóvember og stendur frá klukkan 13 til 16 þann dag í Hörpu í Reykjavík. Umfjöllunarefnin eru loftslagsmál, aðlögun að loftslagsbreytingum og náttúruvernd.
Fulltrúi Miðflokksins í sveitarstjórn Múlaþings, Þröstur Jónsson, gerði þetta að umfjöllunarefni á síðasta sveitarstjórnarfundi enda sé ekki vanþörf á aðhaldi í fjármálum Múlaþings.
„Ég ætla að hvetja til þess að heimastjórnarfólk sýni þá ábyrgð, fyrir svo lítinn fund sem þessi er, að það sé ekki að þvælast suður á kostnað sveitarfélagsins og auka kostnað með því. Ef við í yfirstjórninni ætlum að gera þá kröfu að spara þá verður að sýna gott fordæmi. Ég sýni því algeran skilning þegar verið er að fara á fundi í ýmsum ráðum og nefndum sem eiga beint við sveitarstjórnarstigið eins og til dæmis hjá Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum. [...] En svo er þetta, eins og þessi ráðstefna, ótengd sveitarstjórnarstiginu þó hún sé að vissu leyti tengd og menn eigi erindi þangað, að þá beinum við [þeim tilmælum] til heimastjórna og annarra sem ætla að taka þátt í þessu að nýta sér tæknina og vera bara í streymi.“
Heimstjórnir líka náttúruverndarnefndir
Eyþór Stefánsson, formaður heimastjórnar Borgarfjarðar eystri, benti á í kjölfarið að það væri beinlínis eitt hlutverk heimastjórna Múlaþings að vera umhverfisnefndir ásamt fleiri hlutverkum þeirra nefnda.
„Varðandi vangaveltur um þetta umhverfisþing þá eru heimastjórnirnar líka náttúruverndarnefndir sveitarfélagsins Það hefur verið ýjað að því að þessar heimastjórnir séu ekki alveg að sinna því hlutverki sem skyldi. Ég hef því verið að tala svolítið fyrir því að það sé kominn tími til að þessar náttúruverndarnefndir fari á ársþing náttúruverndarnefnda til að hægt sé að taka fastar utan um það hlutverk. Við vitum öll sem hér erum [á sveitarstjórnarfundi nr. 51] að það er aðeins annað að vera í fjar eða hittast einhvers staðar. Þar hittirðu líka fulltrúa úr öðrum náttúruverndarnefndum, getur tekið spjall og það ef til vill gaman hjá sumum. Þannig að mér finnst það ekki alveg jafn augljóst að það eigi ekki að fara á staðinn þar sem verið er að ræða náttúruvernd og loftslagsmál. Mér er ekki að segja að Þröstur Jónsson hafi rangt fyrir sér í þessu tilfelli en þetta er fín lína. [...] Til þess að einhver hlusti á okkur þá þarf að mynda tengsl og vera sjáanlegur.“
Mynd frá síðasta umhverfisþingi umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytisins en það er Guðlaugur Þór Þórðarson sem býður til þingsins í ár. Mynd Stjórnarráðið