Gagnrýnir opinberar stofnanir fyrir stórskrýtnar tölfræðiupplýsingar
Gistiþjónustuaðili á Borgarfirði eystra átelur það sem hann segir hljóta að vera kolranga skráningu opinberra stofnana á tölfræðiupplýsingum vegna ferðaþjónustu á Austurlandi og landinu öllu. Að tæplega átta þúsund gistinætur Íslendinga séu skráðar á hótelum eða gististöðum austanlands í liðnum ágústmánuði sé lítið minna en fráleitt.
Ef tölfræði opinberra stofnana er mikið til byggð á sandi er betur heima setið en af stað farið að mati Arngríms Viðars Ásgeirssonar sem rekur sveitahótelið Álfheima á Borgarfirði. Fjölmargir aðilar, eins og bankarnir, nýta slíkar opinberar upplýsingar til að gera framtíðarspár um eitt og annað í þjóðfélaginu.
Arngrímur gerði þetta að umtalsefni í tilteknum hóp á Facebook nýverið þar sem hann furðaði sig á nýbirtum tölum Hagstofu Íslands um fjölda gistinátta á Austurlandi síðastliðinn ágúst. Þann mánuð eru skráðar 21 þúsund greiddar gistinætur í fjórðungnum öllum og í rétt tæplega 40 prósent tilfella var um Íslendinga að ræða.
„Með þessu er ég ekki að segja að ég sé sjálfur saklaus í hvernig stofnanir fara með upplýsingar sem eru kannski ekki þær bestu. Stóra spurningin er hver er að gera eitthvað vitlaust. Allir gistihúsaeigendur þurfa reglulega að senda frá sér gistináttaskýrslu til opinberra aðila og sú skýrsla kemur til dæmis beint úr því bókunarkerfi sem ég sjálfur notast við við að skrá mína gesti. En skoði menn tölur sem birtar eru opinberlega í kjölfarið kemur í ljós óvenjulega mikill fjöldi Íslendinga sem keypt hafa gistingu.“
En þar, segir Arngrímur, liggur hundur grafinn
„Ef ég skoða þetta svo í mínu kerfi sjálfur þá kemur í ljós að helmingur gesta eru með óskráð þjóðerni. Þetta undantekningarlítið stærri bókanir frá ferðaskrifstofum til mín og ég og við hér erum ekki í neinni eftirlitsnefnd hvað varðar þjóðerni gesta okkar. Kannski er það trassaskapur hjá mér að ganga ekki á hvern gest hvaðan hann er og hvenær hann er fæddur og svo framvegis. Ég get safnað fullt af upplýsingum en ég er bara ekkert í þeim geira og hef lítinn áhuga.“
Sjálfur segist Arngrímur hugsanlega hafa rekist á eina tíu Íslendinga á sínum gististað í ágústmánuði og finnst skringilegt ef stofnanir ákveða upp á sitt einsdæmi að telja gesti með óskráð þjóðerni sem Íslendinga. Slíkar upplýsingar nýtist engum til að betur halda utan um hluti eða átta sig á umfangi þess eða hins geirans í landinu.“
Gistihúsið Álfheimar er stór gistiþjónustuaðili á Borgarfirði eystra en eigandi þess dregur mjög í efa að opinberar tölur í ferðaþjónustugeiranum séu sannleikanum samkvæm.