Gamla kirkjan á Djúpavogi nánast tilbúin að utan

Ytra byrði Gömlu kirkjunnar á Djúpavogi er nánast tilbúið en finna þarf henni framtíðarhlutverk áður en ráðist verður í að klára hana að innan. Unnið hefur verið að endurbótum á henni frá árinu 2010.

„Það er nánast búið að endurbyggja hana að utan og það sem eftir er þar er í vinnslu. Síðan þarf að finna henni hlutverk áður en haldið verður áfram inni í henni. Það þarf að hanna það í samræmi við nýtinguna,“ segir Hugrún Hjálmarsdóttir, framkvæmda- og umhverfismálastjóri Múlaþings.

Síðast í apríl auglýsti heimastjórn Djúpavogs eftir hugmyndum eða samstarfsaðilum um nýtingu kirkjubyggingarinnar til framtíðar. Þær auglýsingar hafa ekki skilað árangri.

Í Húsakönnun Djúpavogshrepps kemur fram að kirkjan hafi verið byggð árið 1893 í stað kirkjunnar að Hálsi sem fauk í óveðri árið áður. Árið 1996 var byggð ný kirkja á Djúpavogi og sú gamla afhelguð.

Byrjað var á endurbótum hennar árið 2010 en ástand hennar var þá orðið hörlegt. Hún þykir hafa töluvert varðveislugildi vegna aldurs og er meðal elstu bygginga á Djúpavogi. Endurbæturnar hafa meðal annars miðað að því að gera við upphaflega timburklæðningu kirkjunnar og færa hana þannig nær upprunalegu útliti.

Á þessum tíma hefur kirkjan verið nýtt undir fundi og sýningar auk þess sem ýmsar hugmyndir hafa komið fram um framtíð hennar þótt þær hafi ekki enn raungerst.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.