Gauti fyrsti forseti sveitarstjórnar Múlaþings
Gauti Jóhannesson, oddviti Sjálfstæðisflokks, verður forseti bæjarstjórnar i sveitarfélaginu Múlaþingi. Kosið var í ráð og nefndir, þar á meðal heimastjórnir, á fyrsta fundi sveitarstjórnar hins nýja sveitarfélags í gær. Miðflokkurinn fékk enga fulltrúa með atkvæðisrétt í ráð og nefndir.Það var Jakob Sigurðsson, fyrrum oddviti Borgarfjarðarhrepps, sem setti fundinn og stýrði kjöri forseta sveitarstjórnar en það gerði hann lögum samkvæmt sem starfsaldursforseti sveitarstjórnar.
Gauti var kjörinn forseti bæjarstjórnar, Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknarflokks verður fyrsti varaforseti og Hildur Þórisdóttir, oddviti Austurlista, annar varaforseti.
Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mynda meirihluta í nýju sveitarstjórninni en Austurlisti, Vinstrihreyfingin – grænt framboð og Miðflokkur eru í minnihluta. Fyrir fundinn var ljóst í meginatriðum hvernig meirihlutinn skipt með sér embættum en í samræmi við atkvæðamagn þurfti minnihlutinn líka að skipta með sér sætum.
Sjálfstæðisfólk með tvo formenn
Þrjú ráð starfa undir nýrri sveitarstjórn. Fimm fulltrúar eru í byggðaráði. Berglind Harpa Svavarsdóttir, Sjálfstæðisflokki, verður formaður og með henni þar sitja Gauti, Vilhjálmur Jónsson af B-lista og Hildur og Eyþórs Stefánsson frá L-lista. Jódís Skúladóttir frá V-lista og Þröstur Jónsson af M-lista verða áheyrnarfulltrúa, sem samkvæmt sveitarstjórnarlögum eiga framboðsaðilar, sem ekki fá kjörinn fulltrúa í byggðaráð, rétt á að tilnefna áheyrnarfulltrúa í ráðið.
Elvar Snær Kristjánsson frá Sjálfstæðisflokki verður formaður fjölskylduráðs. Með honum sitja Guðný Margrét Hjaltadóttir, Sjálfstæðisflokki og þau Alda Ósk Harðardóttir og Guðmundur Björnsson Hafþórsson frá Framsóknarflokki. Úr minnihluta koma Ragnhildur Billa Árnadóttir og Kristjana Sigurðardóttir af L-lista auk Jódísar Skúladóttur af V-lista. Þórlaug Alda Gunnarsdóttir verður áheyrnarfulltrúi Miðflokks.
Stefán Bogi verður formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs. Með honum þar verða Jónína Brynjólfsdóttir af B-lista, Jakob Sigurðsson og Oddný Björk Daníelsdóttir af D-lista, Pétur Heimisson af V-lista og loks Ásdís Hafrún Benediktsdóttir og Hildur Þórisdóttir frá Austurlistanum. Helgi Týr Tumason verður áheyrnarfulltrúi Miðflokks.
Einn heimamaður aðalmaður í heimastjórn
Þá voru í gær kjörnir fulltrúar sveitarstjórnar í heimastjórnirnar fjórar, en tveir fulltrúar heimamanna voru kosnir samhliða sveitarstjórnarkosningunum. Fulltrúar sveitarstjórnar verða formenn heimastjórnanna en varamenn þeirra varaformenn.
Fyrir fundinn höfðu meiri- og minnihluti ákveðið að deila með sér heimastjórnunum, þannig að minnihlutinn tilnefndi í tvær og meirihlutinn í tvær. Þó fór það svo að kosið var milli tveggja fulltrúa minnihlutans í heimastjórnina á Borgarfirði, sem var fyrst. Þar voru í kjöri Eyþór Stefánsson frá Austurlista og Þröstur Jónsson frá Miðflokki. Eyþór fékk fjögur atkvæði en Þröstur eitt en fulltrúar meirihlutans sátu hjá. Eyþór, sem býr á Borgarfirði, er jafnframt eini heimamaðurinn sem kjörinn var sem aðalmaður í heimastjórn. Hildur verður varamaður hans..
Í heimastjórn Seyðisfjarðar var kjörin Berglind Harpa og Jakob til vara, Vilhjálmur Jónsson mun setjast í heimastjórn Fljótsdalshéraðs þar sem Stefán Bogi verður varamaður hans og loks tekur Jódís Skúladóttir sæti í heimastjórn Djúpavogs en Kristjana Sigurðardóttir verður varamaður.
Á fundinum var einnig lagður fram ráðningarsamningur við Björn Ingimarsson, þar til nú bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs, um að verða fyrsti sveitarstjóri Múlaþings. Tíu bæjarfulltrúar samþykktu samninginn en Jódís sat hjá og vísaði til þess að fyrir kosningar hefðu vinstri græn lýst því yfir að þau vildu auglýsa starfið.