Geðræktarmálþing á Egilsstöðum vakti marga til umhugsunar

Gestir á öðru málþingi Tónleikafélags Austurlands um geðræktarmál í víðu samhengi sem fram fór í Valaskjálf á Egilsstöðum í gær urðu margs vísari um ýmsa þá anga sem geðheilbrigðismál teygja sig til. Skipuleggjandinn hæstánægður með flotta mætingu og ekki síður mörg flott erindi sem vöktu marga til umhugsunar.

Sem og í fyrra var það Austfirðingur ársins 2023 að mati lesenda Austurfréttar, Bjarni Þór Haraldsson, sem kom málþinginu á koppinn en hann hefur ítrekað lýst miklum áhyggjum af geðheilbrigðismálum almennt en ekki hvað síst á Austurlandi. Hann ekki borið áhyggjur sínar í hljóði heldur þvert á móti á fót öðru málþingi um mál er varða alla öllum stundum.

Kom fram hjá velflestum fyrirlesurum á þinginu nú, eins og fyrir ári síðan líka, að mikið vantar upp á að þau mikilvægu mál öll séu eins og best verður á kosið.

Íslendingar nota til að mynda margfalt meira af þunglyndislyfjum en nágrannaþjóðir og Austfirðingar nota slík lyf einna mest Íslendinga. Fleira sem kom á daginn var til dæmis lítil sem engin eftirfylgni með lyfjanotkun og þá sérstaklega meðal eldra fólks og þá hefur orðið nokkur sprenging á fjölda Austfirðinga sem nýta sér þjónustu geðlæknis og sálfræðinga á skömmum tíma. Svo mikil sprenging að sá geðlæknir sem austur kemur annars lagið er nánast fullbókaður langt fram í tímann. Er þá fátt eitt nefnt sem fram kom á þinginu og gerð verður nánari skil á næstunni.

Allt stemmir þetta við nýjustu tölfræði Landlæknis sem sýnir aukið þunglyndi nánast ár frá ári og að sama skapi minnkandi hamingju sífellt fleiri á öllum aldri. Þetta á sama tíma og enginn er hér fastur geðlæknir eins og víða annars staðar í landinu og framlög til Heilbrigðisstofnunar Austurlands standa mikið til í stað.

Hélt við værum komin lengra

Aðspurður um hvað hafi staðið upp úr þessu þinginu að hans mati segir Bjarni hve fyrirlesurum hafi verið tíðrætt um mikið úrræðaleysi í málaflokknum.

„Ég veit ekki hvort það er úrræðaleysi eða beinlínis áhugaleysi en það virðist enn vera raunin í geðheilbrigðismálum. Sjálfur hélt ég að við værum komin lengra á veg en fram kom í máli margra á þinginu í gær. Geðheilbrigðismálin hafa verið mikið í umræðunni nú síðustu misseri og ég var viss um einhvern framgang á því sviði en það virðist einfaldlega ekki vera raunin. Það margt sem fram kom í gær sem vakti gesti til umhugsunar á hvaða leið við séum í þessum málaflokki.“

Bjarni segir eitt liggja nokkuð ljóst fyrir að þinginu loknu hvað varðar Austurland sérstaklega.

„Það er nauðsynlegt að fjölga úrræðum og styðja við þau með einum eða öðrum hætti. Núverandi kerfi er þungt og flókið og fleiri úrræði eins og til dæmis listmeðferðarfræði er bara eitt af því sem mætti nýta mun betur og meira. Því það eru engir eins og því fjölbreyttari úrræði því vænlegra teldi ég til árangurs í viðbót við að létta á kerfinu sjálfu. Það getur ekki verið eina lausnin alltaf að ávísa pillum á alla og vona það besta.“

Samtal við almenning

Bjarni segir skýran vilja hjá sér að halda slík málþing áfram en þátttakan í gær var mjög góð ekkert síður en raunin var í fyrra.

„Það fer ekkert á milli mála að áhuginn er staðar og það hlýtur að vera alltaf til bóta að tala opinskátt um þessa alvarlegu hluti. Sífellt leita leiða til að bæta það sem aflaga hefur farið eða betur má gera og það gerist aðeins með góðu samtali og upplýsingum til almennings.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar