Gerðu 10 milljóna króna á ári samning við Skaftfell
Seyðisfjarðarbær og Samtök sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) hafa gert samning við myndlistarmiðstöðina Skaftfell um fjárstuðning. Nemur upphæðin samtals 10 milljónum kr. á ári næstu fimm árin.„Bæjarfélagið og SSA hafa gert samning til 5 ára við Skaftfell um 5 milljóna króna framlag á ári, hvort um sig. En framlag SSA grundvallast á samningi SSA og ríkisins um sóknaráætlun landshlutans,“ segir í greinargerð, um stöðu menningarmála, á síðasta fundi bæjarstjórnar.
Þar kemur einnig fram að huga þarf hið fyrsta að fjárhagsstöðu Skaftfells myndlistarmiðstöðvar sem stendur frammi fyrir því að þurfa mögulega að loka stofnuninni fyrir árslok. Síðustu ár hefur framlag ríkisins af fjárlögum tryggt rekstur starfsins en þar sem stofnunin var ekki á fjárlögum vegna ársins 2020 þá brast sá grundvöllur.
„Þau sérfræðistörf sem stofnunin skapar eru mjög mikilvæg samfélaginu og landsbyggðinni. Stofnunin þjónar mikilvægu hlutverki í sýningarhaldi, fræðsluverkefnum af ýmsum toga og alþjóðlegu gestavinnustofustarfi,“ segir í greinargerðinni.
„Stofnunin er rótgróin og hefur löngu sannað gildi sitt. Það er mikilvægt að tryggja slíkum stofnunum á landsbyggðinni fjárhagslegan grundvöll með árlegum föstum framlögum af fjárlögum, lengri samningum og tryggja þannig störf og stöðugri og faglegri framþróun til lengri tíma.“