Gerir sér fulla grein fyrir að Austurland hefur setið á hakanum

Logi Einarsson, formaður þingsflokks Samfylkingarinnar og áður fimmti þingmaður Norðausturkjördæmis, hyggst áfram bjóða fram krafta sína á þingi fyrir flokkinn í kjördæminu. Aðspurður segist hann mjög meðvitaður um að Austfirðingar hafi beðið skarðan hlut frá borði þeirrar ríkisstjórnar sem setið hefur undanfarin ár.

Í kjölfar óvæntra stjórnarslita ríkisstjórnar Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fyrir stuttu eru allir flokkar komnir í kosningabaráttu á augabragði ef þeir voru það ekki þegar fyrir.

Samfylkingin stendur einna best að vígi á þessum tímapunkti miðað við skoðanakannanir síðustu mánaða en þar hefur flokkurinn verið að mælast með sterkustu stöðu allra flokka á þingi, nú síðast kringum 30% fylgi í byrjun mánaðarins. Logi segir byrinn góðan en ekkert sé í hendi fyrr en að kosningum loknum.

„Að þetta samstarf stjórnarflokkanna skyldi enda svona kom ekki beint á óvart en það má kannski segja að það sé óheppilegt að slitin hafi gerst á einmitt þessum tíma sökum þess að það liggja fyrir svo mörg mikilvæg mál fyrir þinginu. Ekki aðeins fjárlagafrumvarpið heldur ekki síður stór mál sem snerta Austfirðinga mikið eins og samgöngumálin sem hefði verið algjörlega nauðsynlegt að klára. Það bíður nú nýs þings en best hefði verið að ljúka stóru málunum áður en til nýrra kosninga er boðað.“

Uppstilling raunin

Logi segir að uppstilling verði væntanlega niðurstaðan hjá Samfylkingunni þannig að í ljós verði að koma hvaða sæti hann muni taka á þeim lista.

„Ég á von á að um helgina skipi kjördæmaþing einhverja uppstillingarnefnd sem mun væntanlega hafa einhverja viku til að vinna og flokkurinn einmitt sent út póst og óskað eftir áhugasömum á lista.“

Ekkert gefið þrátt fyrir góðar kannanir

Logi vill ekki gefa sér neitt um útkomu flokksins stöðu þó kannanir sýni sterka stöðu.

„Það sem við höfum gert núna um tveggja ára skeið er að farið víða um landið, haldið einhverja tvö til þrjú hundruð fundi alls, um heilbrigðismál, samgöngumál, húsnæðis- og kjaramál. Það er að segja öll þessi mál sem sameina Íslendinga og eru öllum mikilvæg. Á þessu byggjum við okkar stefnumál og afar skýrri sýn formannsins okkar á efnahags- og ríkisfjármálin sem hafa komið okkur í slæma stöðu undanfarin ár. Þannig að við erum full bjartsýni en jafnframt auðmjúk en það er þjóðin öll sem ákveður hlutina þegar þar að kemur.“

Austurland setið eftir

Aðspurður um hans sýn á stöðuna á Austurlandi sérstaklega segist hann geta tekið undir þeim er segja að fjórðungurinn hafi setið eftir hjá þeirri ríkisstjórn sem setið hefur undanfarin ár.

„Það þarf að gera miklu betur á austurhluta kjördæmisins. Við sjáum til dæmis með þeirri samgönguáætlun sem lögð var fram að þar var nánast bara beitt blekkingum. Til dæmis á borð við að flokka Hornafjarðarósinn sem framlag til samgöngumála á Austurlandi þó í öðru kjördæmi sé. Það eru margar stórar framkvæmdir fyrir austan sem þarf að ráðast í og reyndar um allt land. Þetta mikla niðurbrot sem orðið hefur á kerfinu undanfarin ár skapar svo mikla sóun bæði fyrir fyrirtækin og íbúa. Það verður stóra verkefnið okkar að byggja upp þessi kerfi að nýju og þá ekki síst horfa til Austurlands.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar