Gert við á morgun eftir hvassviðrið

Vegagerðin áformar að gera við vegi á Héraði sem skemmdust í óveðrinu í gær á morgun. Björgunarsveitir hjálpuðu fólki í vanda á Breiðdalsheiði og nóg var að gera hjá austfirskum veitingastöðum sem þurftu að sinna ferðamönnum sem voru strand.


Hávaðarok gekk yfir Austurland í gær. Veðurhamurinn náði hámarki um kaffileytið og mátti þá víða sjá 40 metra hviður á austfirskum veðurstöðvum.

Eins og Austurfrétt greindi frá í gær flettist klæðning af veginum um Fell milli Teigaból og Skeggjastaða á um 10 fermetrum. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni fór klæðningin einnig af sitt hvoru megin við brúna við Kaldá í Jökulsárhlíð. Stefnt er að viðgerðum á morgun.

Lengra er hins vegar í viðgerðir í Fljótsdal þar sem skemmdir urðu á Múlavegi og heimreiðinni að bænum Langhúsum þar sem skemmdirnar eru það miklar.

Björgunarsveitir voru kallaðar út til aðstoðar vegfarendum sem voru á leið yfir Breiðdalsheiði. Þar hafði rúða brotnað í bíl.

250 veðurtepptir Þjóðverjar fengu síðdegiskaffi og súpu í Valaskjálf á Egilsstöðum í gær. Einhverjir þeirra höfðu verið í rútum sem lentu í vandræðum á Möðrudalsöræfum í hádeginu í gær. Fólkið kom til landsins með Norrænu í gærmorgun og komst aftur í skipið um klukkan níu í gærkvöldi.

Eins var mikið að gera hjá Hildibrand í Neskaupstað um hádegisbilið í gær þegar pantað var kökuboð fyrir 100 Færeyinga. Skornar úr út kleinur úr 4 kílóum af hveiti og steikt.

Ánægðir Þjóðverjar í skjólinu í Valaskjálf. Mynd: Valaskjálf

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.