Gestir ferðast 500 ár aftur í tímann með hjálp tækninnar

Nýtt sýndarveruleikaherbergi hefur verið opnað í Gunnarshúsi á Skriðuklaustri. Þar býðst gestum að stíga inn í fortíðina og skoða byggingar miðaldaklaustursins með hjálp nýjustu tækni.


„Þetta er fyrsta gerð af sýndarveruleika af miðaldraklaustrinu og mun stafræn endurgerð klaustursins þróast á næstu misserum,“ segir Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri. Um er að ræða hluta af Evrópuverkefninu CINE sem unnið er í samstarfi við St. Andrews háskóla í Skotlandi.

Gestir setja á sig svokölluð Oculus Rift gleraugu og geta þá skoðað hús og muni í þrívídd á raunverulegri hátt en áður. „Með miðlun sem þessari er hægt að stíga inn í fortíðina og skoða byggingar miðaldaklaustursins gegnum sýndarveruleikagleraugun. Við það finnst þér þú staddur í fortíðinni, fyrir fimm hundruð árum síðan. Þetta er ákveðin viðbót við rústirnar sem við höfum á Skriðuklaustri og hægt er að ganga um. Með þessari tækni er hægt er að útbúa tilgátubyggingar í sýndarveruleika, sem og heilu gripina sem kannski aðeins hafa fundist brot af.“

Þriggja ára verkefni
Um ár er síðan verkefnið hófst en það er til þriggja ára. „Við höfum núna útbúið svart myrkvaherbergi með stórum skjá og þessum sýndarveruleikagleraugum. Að þremur árum liðnum verðum við vonandi komin það langt að hægt verði að ganga um allar byggingarnar okkar í sýndarveruleika og skoða allskonar gripi,“ segir Skúli Björn, en verkefnið hefur hlotið styrk frá Uppbyggingarsjóði Austurlands.

„Allir hrífast með“
Skúli Björn segir fyrstu viðbrögð gesta mjög góð. „Eldra fólki þykir þetta mjög nýstárlegt og suma sundlar aðeins. Krakkarnir þekkja slíkan heim út og inn, en allir hrífast með. Við erum einnig að þróa lítinn leik fyrir snjallsíma sem part af þessu verkefni þar sem hægt er að fara í fjársjóðsleit, bæði utan húss og innan, en hægt er að hala honum niður í Gunnarsstofnun.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.