GG Þjónusta: Úr tveimur starfsmönnum í sextán á rúmu ári

GG Þjónusta ehf. var meðal þeirra sem fengu hæstu stöku styrkina úr Uppbyggingarsjóði Austurlands þegar úthlutað var úr sjóðnum í síðustu viku. Fyrirtækið sérhæfir sig í þrifaþjónustu fyrir matvælafyrirtæki og hefur vaxið hratt á skömmum tíma.

„Við byrjuðum í desember, svo kom hrinan strax í janúar. Við ætluðum bara að vera tvær með lítið fyrirtæki en erum orðin sextán og dreifð um Austurland,“ segir Norðfirðingurinn Guðbjörg Oddfríður Friðjónsdóttir sem stendur að baki fyrirtækinu ásamt Gunnhildi Björk Jóhannsdóttur frá Eskifirði. Það er hraður vöxtur á stuttum tíma því fyrirtækið var stofnað seint á árinu 2016.

„Við vorum báðar að vinna hjá ISS en gáfumst upp á því. Við ákváðum að við gætum allt eins gert þetta sjálfar og að vinna þar, við sáum hvort sem er um þetta þannig við ákváðum að slá til, segja upp þar og byrja með eigið fyrirtæki,“ segir Gunnhildur Björk.

Stuðningur út á að vera austfirskt fyrirtæki

Fyrirtækið hefur tekið að sér verkstjórn á þrifum og umsjón með mötuneytum á nokkrum stöðum á Austurlandi. Nýverið var gengið frá samningi við Síldarvinnsluna um að taka við mötuneyti fiskiðjuversins og verkstjórn á þrifum í öllum vinnslusölum og þrifum á stoðverum fyrirtækisins. Þær stefna á að sérhæfa fyrirtækið í þrifum á matvælaframleiðslufyrirtækjum og nýtist styrkurinn, 1,35 milljónir, til þess.

„Við þurfum að ná okkur í gæðavottanir eins og Svaninn, fara á námskeið og kaupa okkur tæki til að mæla eftir þrifin,“ útskýrir Gunnhildur Björk.

„Það eru gerðar miklar kröfur um hreinlæti hjá fiskiðjunum og þess vegna þarf allt að vera skjalfest og rekjanlegt. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir fyrirtæki eins og okkar að vera með vottanirnar. Ég held að við séum eina fyrirtækið á markaðinum hér fyrir utan ISS sem er með þessar vottanir og býður upp á þessa þjónustu fyrir matvælaiðnaðinn. Stefnan er að fara þangað.“

Þær segjast finna fyrir jákvæðni út á að vera með austfirskt fyrirtæki. „Já, það skiptir öllu máli. Við getum ekki kvartað, við höfum fundið fyrir miklum stuðningi. Það er líka mikilvægt fyrir okkur að fá þennan styrk og hvetur okkur til að halda áfram,“ segir Guðbjörg Oddfríður.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.