Gjörbreytt síldarstemming en samt eimir af henni

Síldarstemmning nútímans er mjög frábrugðin þeirri stemmningu sem ríkti á síldarárunum á síðustu öld en samt eimir af henni. Skipin sem stunda veiðarnar eru fá en burðarmikil og vel útbúin til veiðanna.

Á árum áður voru skipin fjölmörg og fjöldi kvenna á bryggjum við að salta í tunnur. Varð oft mikil stemming í kringum það og eins í mannlífinu þegar brælur hömluðu veiðum..

Þetta kemur fram á vefsíðu Síldarvinnslunnar. Í dag er á hverjum síldarstað einungis eitt fyrirtæki sem tekur á móti síld til vinnslu, að langmestu leyti er síldin fryst og það er einungis brottkast frá manneldisvinnslunni sem fer til mjöl- og lýsisvinnslu. Þá ber að nefna að reykjarmökkurinn frá fiskimjölsverksmiðjunum heyrir sögunni til.

Á vefsíðunni segir að söltun á síld, sem áður var mikilvægur þáttur síldarvinnslunnar, fer einungis fram á Fáskrúðsfirði og það reyndar í sáralitlum mæli miðað við það sem gerðist á síldarárunum. Allir íbúar síldveiðistaðanna börðu silfur hafsins augum á síldarárunum en nú þarf töluvert að hafa fyrir því að sjá þennan fisk sem hefur haft svo mikil áhrif í sögunni. Það má með sanni segja að síldarstemmningin hafi breyst, en hún er engu að síður enn til staðar.

Á yfirstandandi síldarvertíð hafa hingað til einungis þrjú síldveiðiskip landað til mannveldisvinnslu hjá Síldarvinnslunni  í Neskaupstað en það eru Börkur NK, Beitir NK og Margrét EA. Fjórða skipið sem landar þar síld er Hákon EA en þar er aflinn frystur um borð. Sl. laugardag hófst vinnsla á 1.200 tonna afla sem Beitir kom með og lauk vinnslu úr honum sl. nótt. Þá hófst löndun úr Margréti sem komin var með 890 tonn. Reiknað er með að vinnslu úr Margréti ljúki í nótt en Börkur er þegar kominn til hafnar með 1.200 tonn og hefst þá vinnsla á þeim afla.

Mynd: SVN

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.