Gámafélagið átalið fyrir að fylgja ekki starfsleyfi

baejarskrifstofur_egilsstodum_3.jpg
Bæjaryfirvöld á Fljótsdalshéraði átelja Íslenska gámafélagið fyrir að fylgja ekki skilyrðum sem sett voru í starfsleyfi moltugeymslu fyrirtækisins í Mýnesi. Heilbrigðiseftirlit Austurlands gerði alvarlegar athugasemdir við aðkomu að svæðinu í eftirlitsferð sinni fyrir skemmstu.

Athugasemdirnar eru í fernu lagi. Í fyrsta lagi var hliðið opið, girðingin lá niðri og moltugeymslan því aðgengileg hverjum sem er. Hrafnahópur flaug upp þegar heilbrigðisfulltrúinn mætti á svæðið þannig að „augljóst er að fuglinn kemst í æti.“

„Maíspokar virðast ekki rotna nægilega vel og blakta þeir í vindi ofan úr haugunum, mismikið eftir aldri hauganna. Þeir elstu eru orðnir sköllóttir.“

Frá nýjasta haugnum rann síðan vökvi. „Við hauginn voru bæði bein og heilir sítrusávextir, plast og drasl. Því virðist mikið þura að vinna með þessa afurð áður en hún getur nýst sem molta í áburgð, jafnvel þótt leyfi fengist.“

Heilbrigðiseftirlitið krefst þess að umhirða við moltugeymsluna verði lagfærð sem fyrst og óskað eftir upplýsingum um frekari viðbrögð þar sem starfsleyfi svæðisins rennur út á næsta ári.

Eftir að hafa fengið eftirlitsskýrsluna samþykkti bæjarráð Fljótsdalshéraðs bókun þar sem Íslenska gámafélagið er átalið fyrir að fylgja ekki skilyrðum starfsleyfisins. „ Bæjarráð óskar eftir að Íslenska gámafélagið leggi fram skýrar verklagsreglur fyrir starfsfólk sitt um umgengni við svæðið og úrvinnslu lífræna hráefnisins.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar