Ögmundur: Framtíð Reykjavíkurflugvallar ákveðin í þjóðaratkvæðagreiðslu?

ogmundur_jonasson.jpg

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segir það ekki einkamál Reykvíkinga um hvar miðstöð innanlandsflugs eigi að vera í framtíðinni. Sjálfur vilji hann hafa völlinn áfram í Vatnsmýrinni. Hann spáir því að flugsamgöngur verði meira notaðar á næstunni á kostnað bílaumferðar.

 

„Persónuleg skoðun mín er að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram á þeim stað sem hann er. Færsla yrði innanlandsfluginu um megn. Það er ekki um það að ræða að búa til nýjan flugvöll á Reykjavíkursvæðinu,“ sagði Ögmundur á málþingi um framtíð innanlandsflugs á Egilsstöðum í gær.

„Reykjavíkurflugvöllur er þjónustuflugvöllur við landið allt. Þegar kemur að því að taka ákvörðun um framtíð hans hljóta allir landsmenn að koma að henni,“ sagði Ögmundur og varpaði fram þeirri hugmynd að það yrði gert í þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Skipulagsvaldið er hjá sveitarfélögunum en það koma fleiri þættir við sögu. Ríkið á mikið af því landi sem er undir flugvellinum.“

Ögmundur býr sjálfur um 300 metra frá flugvellinum og segist kunna vel við sig þar. „Það er ekkert yndislegra en þegar litlu rellurnar fara í loftið á vorin. Þær eru vorborðar.“

Opinberu gjöldin lítið brot af heildarkostnaði

Ráðherrann tekur ekki undir með þeim sem skella skuldinni af hækkandi flugfargjöldum á aukin gjöld ríkisins. Að baki þeim hækkunum sé einnig kostnaður.

„Flugið mitt fram og til baka kostar 43.500 krónur. Þar af fær ríkissjóður 150 krónur í kolefnisgjald, 150 í leiðarsögugjald, 300 krónur í lendingargjald og 850 krónur í farþegagjald. Það er 498 krónur ef flogið er til Egilsstaða því það er ódýrara að lenda á Egilsstöðum en í Reykjavík.“

Varnarbarátta íslensks flugs

Hann sagði lítið vera hægt að gera til að lækka flugfargjöld í dag. Menn hafi háð varnarbaráttu og tekist að verja íslenskar flugsamgöngur eftir hrunið.

„Við verjum rúmum tveimur milljörðum til stuðnings fluginu. Þar af fær Keflavíkurflugvöllur fær 271 milljón til viðhalds og tæpar 200 milljónir fara í stuðning við innanlandsflug. 

ISAVIA taldi að auka þyrfti framlög til flugfélagsins um milljarð. Þau eru nú um 200 milljónir króna. Á samdráttartímum hefur okkur tekist að verja flugið. Fyrir örfáum árum eyddu Íslendingar um 30 milljörðum í flug en eftir hrun minnkaði það um helming.“

Flogið frekar en keyrt

Þrátt fyrir kostnaðinn spáir Ögmundur því að flugsamgöngur aukist á næstu árum á kostnað bílaumferðar.

„Ferðakostnaður er kominn á ystu nöf. Ég held að hækkandi olíuverð verði til þess að lyfta mönnum upp í loftið. Þróunin verður sú að menn horfa til viðskiptalegra þátta.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar