Góð makrílveiði innan íslensku lögsögunnar

Makrílveiðar hafa gengið það vel síðustu daga að vinnsla Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hefur vart undan. Veitt er í íslensku lögsögunni sem skiptir máli fyrir bæði gæði fisksins, kostnað við veiðarnar og samningsstöðu Íslands um fiskinn.

Samkvæmt tölum Fiskistofu síðan á sunnudag var búið að veiða 15.500 tonn á vertíðinni af 127 þúsund tonna kvóta. Þar af voru 6.600 tonn komin á land í Neskaupstað.

Barði kom inn til Norðfjarðar í morgun með um 1.300 tonn. Nýbúið er að landa aðeins stærri úr Berki sem fór aftur út til veiða í nótt. Skip Síldarvinnslunnar eru í veiðisamstarfi með skipum Samherja. Þau eru fimm saman og skiptast á að sigla með fullfermi til löndunar og vinnslu í Neskaupstað.

Veiðin hefur verið það góð síðustu daga að vinnslan þar hefur ekki alltaf haft undan. Þannig fór Margrét EA með farm til Færeyja nú í vikunni.

„Það verður að veiða meðan það er veiði. Veiðin hefur gengið fínt undanfarna sólarhringa og vinnslan verið á fullu. Fiskurinn hefur verið stór og góður. Síðan dettur veiðin niður á milli, það var til dæmis lítið að sjá í nótt,“ segir Grétar Örn Sigfinnsson, rekstrarstjóri útgerðar hjá Síldarvinnslunni.

Veiðin það sem af er vertíðinni hefur nær öll verið innan íslensku lögsögunnar. Skipin hafa haldið sig í hnapp nærri miðlínunni milli Íslands og Færeyja. Makríllinn er deilistofn sem þjóðirnar við Norður-Atlantshafi hafa ekki samið um hvernig skuli skipt. „Þess vegna er mikilvægt fyrir okkar samningsstöðu að við veiðum hann innan okkar lögsögu,“ útskýrir Grétar.

Makríll byrjaði að ganga inn í íslenska lögsögu af alvöru árið 2008. Síðan hefur verið mismikið af honum enda er hann flökkufiskur sem syndir hratt á eftir æti sínu. Önnur ár hafa skipin elt hann austur á alþjóðlega hafsvæðið Smuguna. „Þegar styttra er að fara á miðin verður hráefnið sem kemur í land ferskara og betra,“ segir Grétar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.