„Góðir leikmenn að koma upp úr yngri flokkastarfinu okkar"

14 leikmenn skrifuðu undir samninga við Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar (KFF) þann 22. desember síðastliðinn. Tólf skrifuðu undir samning vegna meistaraflokks karla og tvær stúlkur er spila með sameiginlegu liði KFF, Hattar og Leiknis. Níu skrifuðu undir sína fyrstu samninga.

  

„Þetta er annað árið sem við bjóðum leikmönnum okkar samninga. Í fyrra skrifuðu fjórir strákar fæddir 2003, undir samning hjá okkur og þessir sem skrifuðu undir hjá okkur núna í ár eru allir fæddir 2004. Fyrir utan auðvitað eldri reynsluboltana,“ segir Helgi Freyr Ólason formaður Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar.

Reynsluboltar sem um ræðir eru Jóhann Ragnar Benediktsson sem hann hefur verið einn mikilvægasti leikmaður KFF til margra ára og svo þeir Mikael Natan Róbertsson, Marinó Máni Atlason, Stefán Bjarki Cekic og Hákon Huldar sem endurnýjuðu samninga sína við KFF

Svo má alls ekki gleyma þeim Freyju Karínu Þorvarðardóttur og Maríu Nicole Lecka. Þær voru að skrifa undir sína fyrstu samninga líka. Þær eru mikið efni.

Athygli vekur að fyrir utan Freyju og Maríu voru sjö aðrir leikmenn að skrifa undir sinn fyrsta samning. Það voru þeir Andri Stefnisson, Arnór Berg Grétarsson, Birkir Ingi Óskarsson,Dagur Þór Hjartarson, Geir Sigurbjörn Ómarsson, Ragnar Þórólfur Ómarsson, Anton Berg Sævarsson.

„Við sáum það í fyrra og núna að þessir leikmenn sem skrifuðu undir samninga hjá okkur eru mikið efni. Það er gaman að sjá svona mikið af efnilegum og góðum leikmönnum að koma upp úr yngri flokkastarfinu okkar. Það þýðir að við erum að gera eitthvað rétt,“ segir Helgi

Honum fannst KFF þurfa að bjóða þessum leikmönnum samninga. „Við vildum verðlauna þá og svo viljum við auðvitað líka halda í þá. Það er einn þáttur í að byggja upp gott lið fyrir framtíðina,“ segir Helgi 

Hann segir þá skipta miklu máli að halda í hæfileikana hérna á Austurlandi. Hann segir samningurinn sé ekki launasamningur en feli til dæmis í sér styrk til kaupa á búnaði og svo ef leikmenn koma inn á í leik á íslandsmóti fá þeir smá bónus.

„Þessir samningar og svo til dæmis Íþróttaakademía Verkmenntaskóla Austurlands skiptir miklu í að halda í gott íþróttafólk hérna á Austurlandi. Allir strákarnir sem skrifuðu undir í fyrra eru í Íþróttaakademíunni. Allt þetta skiptir máli,“ segir Helgi að lokum.

 Nýir og eldri leikmenn við undirskriftina þann 22. desember síðastliðinn ásamt Helga Frey formanni og Dragan þjálfara KFF.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar