Grænlandsfálki flögrar um Austurland

Grænlandsfálki hefur undanfarna daga vakið athygli austfirskra fuglaáhugamanna. Fuglafræðingur telur líklegast að hann sé á leið heim eftir vetursetur.


Fálkinn rak upphaflega á fjörur skipverja á Gullveri NS þegar hann að veiðum um 50 sjómílur úti fyrir suðausturlandi fyrir páska.

Þeir komu með í land, sýndu hann líffræðingum áður en honum var sleppt á Egilsstöðum eftir að hafa verið merktur og fengið æti. Fálkinn sást svo á ferð í Eiðaþinghá um helgina.

Ólafur K. Nielsen, fuglafræðingur hjá Náttúrustofnun Íslands, telur líklegast að um Grænlandsfálka sé að ræða. Sá fugl er ljósari en sá íslenski þótt þessi sé fremur dökkur af slíkum að vera.

Grænlandsfálkarnir lýsast með árunum og að líkindum er um að ræða ungan fugl, um árs gamlan.

Grænlandsfálkar verpa eins langt í norður og landið nær og eru ljósari eftir því norðar dregur en sunnar eru þeir dökkir eða gráir.

Þeir sem norðast lifa hafa vetursetur annars staðar, sumir á suðurströnd Grænlands, aðrir í Kanada, nokkrir á Íslandi og jafnvel á hafís úti á rúmsjó.

Í samtali við Austurfrétt taldi Ólafur líklegast að fálkinn hefði verið á heimleið. Grænlandsfálkar sjást flest ár á Íslandi en sjaldnast jafn austarlega og þessi var. Hann gæti hafa haft vetursetu á meginlandi Evrópu.

Mynd: Gunnlaugur Hafsteinsson

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.