Grátlegt ef leyfisumsóknir falla niður eftir áralangt ferli vegna manneklu

Ekki er enn að fullu ljóst hvaða áhrif nýsamþykkt lög um fiskeldi hafa á starfsemi austfirskra fiskeldisfyrirtækja. Framkvæmdastjóri Laxa segir grátlegt ef fyrirtæki þurfi að hefja ferli sitt upp á nýtt vegna manneklu í stofnunum.

„Við eigum eftir að skoða þessi mál nánar það verða einhver áhrif fyrst nefndin ákvað að ganga inn í ferlana. Það kemur misilla við fyrirtækin. Þetta er hins vegar stöðupunktur sem þarf að vinna út frá og horfa fram á við,“ segir Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa og formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Meðal síðustu verka Alþingis fyrir sumarfrí var að samþykkja tvö lagafrumvarp um annars vegar gjaldtöku fyrir fiskeldi, hins vegar frumvarp um breytingar á ýmsum löndum sem snúa að fiskeldi.

Tvö fyrirtæki, Laxar og Fiskeldi Austfjarða, stunda eldi í sjókvíum á Austfjörðum í dag. Bæði hafa lagt fram umsóknir um talsverða aukningu á eldi. Sumar umsóknirnar hafa verið árum saman í ferli.

„Í mjög grófum dráttum byrjar leyfisferlið hjá Skipulagsstofnun, fer síðan til Umhverfisstofnunar og loks Matvælastofnunar. Það hefur tekið lengri tíma en lögbundnir frestir og tímarammi kveða á um. Seinkunin helgast af því að ekki er til staðar innan stofnananna nægur mannskapur til að þjónusta umsóknirnar.

Vegna þessa getur ferlið dregist yfir nokkur ár. Því er grátlegt að missa leyfi sem komin væru í hús ef farið hefði verið eftir öllum lagarömmum,“ segir Jens Garðar.

Halda uppbyggingunni áfram

Samkvæmt tillögu atvinnuveganefndar samþykkti Alþingi nokkrar breytingar á lögunum í lokameðferð sinni. Í þeim felst meðal annars að umsóknir á svæðum sem ekki hafa verið burðarþolsmetin skulu falla niður. Á svæðum sem hafa verið metin verða umsóknirnar teknar til afgreiðslu í þeirri röð sem þær bárust.

Þá fá þau fyrirtæki sem sent höfðu Matvælastofnun fullnægjandi gögn um rekstrarleyfi fá afgreiðslu samkvæmt lögunum eins og þau voru fyrir breytingu. Sama gildir um þau leyfi sem langt eru komin hjá Skipulagsstofnun. Í báðum ákvæðum er um að ræða bráðabrigðaákvæði.

Leyfi til nýtingar á þeim svæðum sem laus verða til úthlutunar verða boðin upp. „Frumvarp ráðherra miðaði við að þau svæði sem ætti eftir að burðarþolsmeta yrðu boðin upp. Við erum ekki fylgjandi uppboðsleiðinni en töldum að það að miða við svæði sem ætti eftir að meta væri eini hreini skurðarpunkturinn.

Fyrirtækin eru á mismunandi stöðum í sínum ferlum þannig að það að nefndin skuli fara á þennan hátt inn í umsóknirnar getur haft áhrif.“

Jens Garðar sagðist ekki tilbúinn að tjá sig á þessari stundu um áhrif lagasetningarinnar á Laxa. „Sumar leyfisumsóknirnar haldast inni, aðrar ekki. Við sjáum það síðar en við höldum áfram okkar siglingu og uppbyggingu.“

Aukagjöld á Íslandi

Talsmenn eldisfyrirtækjanna hafa bæði gagnrýnt uppboðshugmyndirnar sem og auðlindagjald á sjókvíaeldi. Þeir hvöttu til þess að gjaldtökunni yrði frestað á meðan fyrirtækin væru að byggja upp starfsemi sína. Jens Garðar bendir á að þess utan séu tekin ýmis gjöld tekin af greininni sem geri alþjóðlega samkeppni erfiða.

„Aðeins lítill hluti þeirra leyfa sem eru í gildi í Noregi var boðinn út. Við erum líka að borga ýmis gjöld svo sem aflagjald, vörugjald og hafnargjald sem norsku eldisfyrirtækin borga ekki. Þegar öllu er á botninn hvolft erum við í samkeppni við Norðmenn.“

Vonast eftir endurskoðun áhættumats

Ein veigamesta laganna er lögfesting áhættumats erfðablöndunnar sem unnið verður af Hafrannsóknastofnun. Áhættumatið er oft töluvert lægra heldur en burðarþolsmat eldissvæðanna. Í lögunum er einnig kveðið á um að fiskeldisfyrirtækin beiti mótvægisaðgerðum, svo sem að nota stærri seyði, ljósastýringu og minni möskva til að koma í veg fyrir að fiskar sleppi úr eldinu.

Jens Garðar vonast til að í ljósi þessara mótvægisaðgerða verði áhættumat svæðanna tekið til endurskoðunar. „Ef fyrirtækin koma til móts við allar mótvægisaðgerðir tel ég að það skapi forsendur til að endurútreikna áhættumatið. Það verði næsta skref.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar