Grátt í fjöll á sunnudagsmorgni

Snjóföl mátti sjá á nokkrum stöðum í fjöllum á sunnanverðum Austfjörðum í gærmorgun. Bóndi í Skriðdal segist enn vera bíða eftir heyskapartíðinni.

„Það var grátt í fjöllum hér í gærmorgun og tók ekki upp í gær,“ segir Sigríður Benediktsdóttir á Flögu í Skriðdal.

Á mynd sem Sigríður tók af hlaðinu í Flögu um klukkan níu í gærmorgun má meðal annars sjá vel grátt í Sandfelli, sem teygir sig alls í um 1157 metra hæð. Austurfrétt hefur spurnir af því að víðar hafi verið grátt í fjöll í fjórðungnum í gærmorgun.

Sigríður segir að sumarið sé búið að vera Skriðdælingum erfitt. „Við höfum beðið eftir almennilegri heyskapartíð í allt sumar, eins og allir. Við náðum heyi fyrir sauðburð og fengitíð á góðu dögunum í júlí en annars þá hefur alltaf komið rigning.“

Ekki er fyrir að rætist úr veðrinu í vikunni. Spáð er norðlægum áttum, hita um eða undir tíu gráðum og skúrum eða rigningu.

Mynd: Sigríður Benediktsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar