Grettir sterki og Jón Kjartansson komnir til Esbjerg
Dráttarbáturinn Grettir sterki kom til Esbjerg í Danmörku í morgun með fjölveiðiskipið Jón Kjartansson í eftirdragi. Skipin voru tæpa viku frá Reyðarfirði.Skipin létu úr höfn á Reyðarfirði um kvöldmatarleytið síðasta þriðjudag og komu til Esbjerg snemma í morgun.
Þar mun Jón Kjartansson ljúka ferli sínum því það hefur verið selt í brotajárn. Kaupandinn er Smedegaarden AS, sem kynnir sig á heimasíðu sinni sem eitt fremsta fyrirtæki Evrópu í að skera í sundur skip á umhverfisvænan hátt. Það selur síðan parta úr þeim.
Í færslu frá forstjóra Smedegaarden á LinkedIn segir hann að um borð í Jóni sé öflug vél, sem aðeins hafi gengið innan við 5.000 tíma síðan hún var síðast endurnýjuð. Þá sé um borð í skipinu góður veiðibúnaður sem vel sé hægt að nýta áfram.
Smedegaarden gekk frá kaupunum á Jóni í nóvember 2023 en ekki var veður til að draga skipið yfir hafið fyrr en nú í maí.
Mynd: Gunnar B. Ólafsson