Grófu laxahrogn í 10 stiga gaddi

Veiðiklúbburinn Strengur, undir handleiðslu og hjálp sérfræðinga Hafrannsóknarstofnunar, grófu nýverið á annað hundrað þúsund hrogn í ám á Norðausturlandi. Þetta er liður í verndun og uppbyggingu Norður-Atlantshafslaxastofnsins. 

 

 Í fréttatilkynningu frá Streng kemur fram að þetta sé þáttur í einu umfangsmesta verndarstarfi sem þekkist í þágu Norður-Atlantshafslaxins. Markmið þessar aðgerðar er að fjölga uppvaxtar- og fæðuöflunarsvæðum laxins. Á þetta að ýta undir vöxt og auka afkomulíkur fiskanna á fyrri hluta lífsferilsins.

„Verkefnið er mikilvægur liður í að víkka út hrygningarsvæði Atlantshafslaxins á Norðausturlandi. Um leið er  þetta hluti af víðtækara verndarstarfi á svæðinu.

Með nánu samstarfi við bændur og sveitarfélög svæðisins getum við saman komið á sjálfbæru og umhverfisvænu verndarstarfi. Það eflir bæði náttúrufar og nærsamfélag. Um leið er svæðið eflt sem heimsklassa áfangastaður í tengslum við stangveiði,“ segir Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Strengs.

Að þessu sinni voru grafin hrogn á völdum stöðum í Kverká, Hvammsá, Miðfjarðará, Vesturdalsá og Selá. Að auki voru tekin hrogn af foreldrafiskum. Öllum fiskum var sleppt að lokinni kreistingu. Næsta sumar verða svæðin svo heimsótt aftur og árangur metinn eftir að hrognin klekjast.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að auk beinnar fjárfestingar Jim Ratcliffe er allur ágóði af starfsemi Strengs settur aftur í verndarsvæði laxa á Norðausturlandi. Haldið verður áfram að styðja við árnar og óspillt umhverfi þeirra. Búsvæði þeirra verður líka eflt og aukið. Þessi vinna er unnin í samstarfi við bændur og fólk í nærsamfélaginu.

Jafnframt kemur fram að áætlun um útvíkkun hrygningar- og uppvaxtarsvæða með byggingu nýrra laxastiga gangi vel. Það er hluti af langtímaáætlun um stuðning við villta laxastofna á Íslandi. 

Þessi verkefni eru fjármögnað að stærstum hluta af Jim Ratcliffe og svo Veiðiklúbbnum Streng.  Á síðasta ári var til dæmis lokið við nýjan laxastiga í Miðfjarðará. Þar hefur laxinn þegar hafið göngu upp í efri svæði árinnar, sem bæta um 4,5 kílómetrum af búsvæði við fyrir ungfiskinn.

Að neðan má sjá myndir og myndband úr hrognagreftrinum.

 

Hrognagröftur í Selá undir lok október. Frá vinstri Helgi Þorsteinsson, Guðni Guðbergsson, Ingi Rúnar Jónsson og Gísli Ásgeirsson.

 

Erfða og hreistursýni tekin

Við kreistingu þarf gætni og rétt handtök líkt og hér má sjá hjá Stefáni Hrafnssyni við Selá undir lok október síðast liðins.

Guðni Guðbergsson og Stefán Hrafnsson með fisk til að nota við hrognagröft í Miðfjarðará. Fiskunum er svo sleppt aftur.

 

 

Myndir: Veiðiklúbburinn Strengur

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar