Grunur um að einstaklingur hafi fallið í Jöklu við Stuðlagil

Björgunarsveitir af Austurlandi og þyrla Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út um klukkan hálf þrjú í dag vegna gruns um að einstaklingur hafi fallið í Jökulsá við Stuðlagil. Víðtæk leit er hafin.


RÚV greindi fyrst frá útkallinu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Austurlandi barst tilkynning um að einstaklingur hefði sést í ánni við Stuðlagil. Vitni segjast hafa séð hann fljóta í stutta stund en hverfa svo.

Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn, segir að ekki hafi enn verið staðfest að manneskja hafi fallið í ána. Allt viðbragð miði hins vegar við að svo sé. Af samtölum við viðbragðsaðila má ráða að takmarkaðar upplýsingar liggi fyrir.

Björgunarsveitirnar Hérað og Jökull voru fyrst kallaðar út. Björgunarsveitir víðar af Austurlandi strax í kjölfarið. Meðal annars verður notast við flygildi við leitina.

Þyrla Landhelgisgæslunnar fór í loftið frá Reykjavíkurflugvelli klukkan 15:15. Áhöfn þyrlunnar var við æfingar á flugvellinum og því fljót í loftið. Áætlaður flugtími þyrlunnar austur er um einn og hálfur tími.

Önnur þyrla gæslunnar er á leið í loftið. Sú mun flytja kafara frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins til aðstoðar við leitina.

Tvær vikur er síðan áin fór af yfirfalli. Hún var það aðeins í tæpa viku. Á meðan svo stendur rennur úr henni jökulvatn úr Hálslóni en þess utan er hún tær bergvatnsá.



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar