Grunur um að tveimur konum hafi verið byrluð ólyfjan

Lögreglan á Austurlandi hefur til skoðunar tvö mál frá þeirri helgi sem Eistnaflug var haldið í Neskaupstað þar sem grunur er um að konum hafi verið byrluð ólyfjan. Yfirlögregluþjónn segir málin alvarleg en erfið í rannsókn.

Austurfrétt hefur áður rætt við Margréti Sigurðardóttur sem leitaði sér aðhlynningar eftir að hafa misst meðvitund á laugardagskvöldi hátíðarinnar. Hún telur það hafa gerst því lyfjum hafi verið komið fyrir í drykk hennar.

Í dagbók lögreglunnar eftir hátíðina kemur fram að grunur leiki á að tveimur konum hafi verið byrluð ólyfjan. Þær hafi báðar leitað aðstoðar á sjúkrahúsinu í Neskaupstað þar sem önnur þeirra var lögð inn. Báðar hafi borið fyrir sig minnis- og máttleysi auk þess sem önnur þeirra hafi verið með lágan blóðþrýsting og blóðsprungin augu.

„Það er alvarlegt mál ef fólk telur sig hafa verið byrlað ólyfjan,“ segir Jónas Wilhelmsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi.

Hann segir lögreglu hafa upplýsingar um málin. „Við getum ekki útilokað að þeim hafi verið byrluð ólyfjan en það er mjög erfitt að sýna fram á það. Svona mál koma upp annað slagið.

Rannsóknir eru erfiðar og dýrar auk þess sem helmingunartími lyfjanna er skammur. Oft er dálítill tími liðinn þegar fólk áttar sig á hvað er í gangi,“ segir Jónas.

Hjá Aflinu, samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi sem héldu úti gæslu á hátíðinni, fengust þær upplýsingar að ekkert tilfelli sem tengdist byrlun hefðu komið beint inn á borð gæslufólks. Hins vegar hefði borist ábending um slíkt í gegnum þriðja aðila aðfaranótt laugardags. Þá strax hafi gæslufólk verið látið vita og hvatt til að hafa augun opin. Þetta hafi verið rætt við aðstandendur hátíðarinnar fyrri part laugardags og ákveðið að auka sýnileika gæslunnar.

Hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands fengust þær upplýsingar að ekki væri hægt að veita upplýsingar um einstaka komur á sjúkrahús.

Þar er móttaka fólks með lyfjaeitrunar er stöðluð og fer eftir ástæðu eitrunar. „það er kolað ef það er hægt, eða sett niður sonda og reynt að dæla upp úr fólki ef það er hægt. Sjúklingarnir eru undir strangri vöktun þó í mislangan tíma eftir eðli eitrunar. Haft er samband í hvert skipti við eitrunarmiðstöð og fengið leiðbeiningar frá þeim,“ segir í svari Nínu Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar.

Starfsfólk stofnunarinnar kallar ekki til lögreglu, algjörlega er undir sjúklingi sjálfum komið hvort hann kæri málið eða ekki.

Í yfirliti lögreglu kemur fram að fimm minniháttar fíkniefnamál hafi komið upp á hátíðinni og ein líkamsárás verið kærð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar