Grunur um brennisteinssambönd í eitrun á Eskifirði

Grunur leikur á að brennisteinssambönd hafi valdið einkennum eitrunar hjá fimm verkamönnum sem störfuðu við löndun kolmunna á Eskifirði í síðustu viku. Búið er að útiloka súrefnisskort en rannsókn er haldið áfram.

Fimm starfsmenn Tandrabergs voru fluttir á sjúkrahús í Reykjavík fyrir viku eftir að hafa fundið fyrir kvillum eins og miklum sviða í augu, útbrotum og kláða nokkrum klukkustundum eftir löndun á kolmunna úr skipi Eskju. Þeir voru útskrifaðir í lok síðustu viku, snéru aftur heim og mættu til vinnu í byrjun þessarar viku.

Enn er ekki ljóst hvað olli einkennunum en Vinnueftirlitið er að safna saman gögnum í rannsókn sinni. Enn er of snemmt að segja fyrir um hvaða efnasambönd ollu einkennunum.

Þekkt er að frá kolmunna getur myndast koltvíoxíð eða jafnvel kolmónoxíð, einkum ef mikil áta er í honum, sem étið getur upp súrefni í lokuðu rými svo sem lest skips. Þess vegna á súrefni að vera mælt fyrir löndun. Starfsmennirnir voru með súrefnismæla á sér við störf sín.

Í svari við fyrirspurn Austurfréttar segir Guðmundur Mar Magnússon, sérfræðingur á öryggis- og tæknisviði Vinnueftirlitsins, að mælingar hafi verið lagi þannig ekki sé um súrefnisskort að ræða, enda einkennin ekki þannig.

Líklega sé um að ræða lofttegundir sem myndist í fiskinum. Grunur erum brennisteinssambönd, brennisteinsvetni og brennisteinstvíoxíð, sem valdið geti einkennum eins og mennirnir fengu. Dvöl í rými með lágum styrk efnanna þarf ekki að kalla fram einkenni strax heldur geta þau, einkum brennisteinstvíoxíð, sest í vinnuföt og myndað sýru sem fólk verður útsett fyrir þegar farið er úr fötunum.

Strax daginn eftir atvikið sendi Vinnueftirlitið leiðbeiningar til löndunarfyrirtækja þar sem minnt var á hættur við starfið og hvernig forðast megi það. „Mælingar á skaðlegum lofttegundum geta gefið misvísandi niðurstöður þar sem efnin geta legið í pollum og losnað skyndilega þegar hreyft er við hráefninu. Samhliða súrefnismælingu þarf því að tryggja góða loftræstingu á meðan fólk vinnur við þessar aðstæður,“ segir í svarinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar