Gísli hættir hjá Loðnuvinnslunni eftir tæplega 40 ára starf

gisli_jonatansson_web.jpg
Gísli Jónatansson lætur af störfum sem kaupfélagsstjóri Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga og framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar í sumarlok eftir 38 ára starf. Hann segist ánægður með hvernig til hafi tekist en reksturinn var sérstaklega þungur fyrstu árin. Friðrik Mar Guðmundsson tekur við starfinu.

„Þegar ég tók við Kaupfélagi Fáskrúðsfirðinga (KFFB) var fjárhagsstaðan mjög erfið og fyrstu fimm árin er varla hægt að segja að félagið hafi verið fjárhagslega sjálfstætt. Þetta var fyrir tíma kvótakerfisins og þess vegna var hægt að veiða eins og við gátum og það gekk vel á skipin,“ segir Gísli í viðtali í héraðsfréttablaðinu Austurglugganum sem út kom á föstudag.

„Fyrsta stóra málið sem ég tók við sem framkvæmdastjóri á Fáskrúðsfirði var að klára byggingu frystihússins á Fiskeyri, en það var formlega tekið í notkun árið 1976. Í desember sama ár var gengið frá kaupum á hlutafélaginu Hvalbak h/f á Breiðdalsvík, en í þeim kaupum fylgdi skuttogarinn Hvalbakur, sem fékk nafnið Hoffell SU 80 og var systurskip Ljósafells SU 70. Þetta voru tveir af 10 skuttogurum sem smíðaðir voru í Japan fyrir Íslendinga og reyndust frábær skip“ segir Gísli.
 
Ljósafellið er ennþá á Fáskrúðsfirði, en 31. maí n.k. verða liðin 40 ár frá komu þess. Það landaði síðast í morgun 86 tonnum, aðallega þorsk og ýsu og á að fara aftur til veiða á miðvikudag.

Fjárfestingar sem gjörbreyttu lífi Fáskrúðsfirðinga 
 
Að mati Gísla er það merkilegasta við þessar fjárfestingar að það skyldi takast að byggja eitt stykki frystihús og kaupa tvo nýja skuttogara á aðeins fjórum árum. „Þessar fjárfestingar gjörbreyttu lífi fólks hér á Fáskrúðsfirði, en þeim fylgdi mikil og góð samfelld atvinna allt árið um kring og má segja að Fáskrúðsfirðingar búi að þessum ákvörðunum enn í dag. Ég tel að tilkoma Byggðasjóðs árið 1971 hafi verið lykillinn að því að hægt var að ráðast í þessar djörfu fjárfestingar á þessum tíma.“

KFFB var stofnað í ágúst árið 1933 og heldur því upp á áttatíu ára afmæli sitt í ár. Félagið hefur lengst af byggt starfsemi sína á sjávarútvegi. Það stofnaði ásamt nokkrum útgerðarmönnum hlutafélagið Hraðfrystihús Fáskrúðsfjarðar hf. árið 1940. Þetta félag var samrekið kaupfélaginu til ársins 1993, en þá var það sameinað kaupfélaginu, enda hafði það í áratugi verið nánast 100% í eigu þess. Það var svo árið 1994 sem hlutafélagið Loðnuvinnslan hf. var stofnuð. 

Miklar framkvæmdir við verksmiðjurnar 
 
Upphaflegt markmið Loðnuvinnslunnar var að reisa 1000 tonna fiskimjölsverksmiðju á Fáskrúðsfirði, en kaupfélagið var þá búið að reka hér eldri fiskimjölsverksmiðju frá árinu 1951. Sú verksmiðjan tók til starfa í janúar árið 1996 og hefur reynst mikil lyftistöng fyrir atvinnulífið.
 
„Í upphafi var hún talin ein tæknivæddasta verksmiðjan hér á landi og við hana voru reistir fyrstu stóru mjöltankarnir sem byggðir voru hér á landi“ segir Gísli.

Eftir verðfall á fiskimjöl og lýsi um þúsaldarmótin var sjávarútvegsstarfsemi kaupfélagsins og Loðnuvinnslan sameinuð undir merkjum Loðnuvinnslunnar frá og með 1. janúar 2002. KFFB á þar 83% en um 80 hluthafar um 17%.

Á síðastliðnu ári hefur Loðnuvinnslan verið í stórum fjárfestingum og keypti meðal annars 530 tonna bolfiskskvóta, sem aðallega er þorskur. Miklar framkvæmdir hafa að undanförnu verið í uppsjávarfrystihúsinu og verið er að rafvæða fiskimjölsverksmiðjuna og bæta mengunarbúnað.

Friðrik Mar, sem tekur við 1. september, hefur unnið við ýmis stjórnunarstörf í gegnum árin og er núverandi framkvæmdastjóri Mjólku/Vogabæjar ehf. Þar áður var Friðrik Mar framkvæmdastjóri Matfugls ehf., Tanga h/f á Vopnafirði og kaupfélagsstjóri Kaupfélags Stöðfirðinga. Þá hefur hann setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja m.a. sem stjórnarformaður Loðnuvinnslunnar hf. frá árinu 2004.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.