Gísli Tryggva: Við erum ekki lið sem drekkur caffé latte og hugsar ekki um hag landsbyggðarinnar
Dögun vill breyta stjórnarskránni og stjórnkerfinu þannig að ákvarðanir verði færðar nær íbúum. Þannig eflist sjálfsákvörðunarrétturinn þótt atkvæðavægi við þingkosningar verði jafnað. Flokkurinn leggur einnig áherslu á breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og afnám verðtryggingar.
Þetta kom fram í máli Gísla Tryggvasonar, oddvita flokksins í Norðausturkjördæmi á opnum framboðsfundi sem haldinn var í Menntaskólanum á Egilsstöðum fyrir skemmstu.
„Hversu margir hér hafa smakkað caffé latte? Réttið upp hönd,“ voru fyrstu orð Gísla í ræðustól. Þó nokkur fjöldi fundargesta rétti upp hönd.
„Já – þetta er kannski svipað hlutfall og á lista Dögunar. Þar er ekki bara fólk sem drekkur caffé latte og hugsar ekki um hagsmuni landsbyggðarinnar heldur erum við með mjög skýra landsbyggðarstefnu.“
Gísli lagði áherslu á hátt hlutfall kvenna á framboðslistanum og sagði flokkinn berjast fyrir umbótum á fiskveiðistjórnunarkerfinu, afnámi verðtryggingarinnar og nýrri stjórnarskrá.
„Í stað þess að senda fleiri og fleiri þingmenn suður með betlistaf í hendi til að stunda kjördæmapot til að menn fái samgöngubætur og réttindi á við þá sem búa á suðvesturhorninu viljum við meira vald heim í hérað – og þá á ég ekki bara við Fljótsdalshérað,“
Hann sagði að liðsmenn Dögunar vildu koma á búsetu- eða rekstrarskyldu á jarðeignum og efla strandveiðar, sem séu umhverfisvænar og gefa handfæraveiðar frjálsar.
Frambjóðendur voru meðal annars spurðir um hvort leyfa ætti vændi sem þeir voru almennt sammála um að ætti að vera bannað. Nokkrir minntust á þátt úr dönsku þáttaröðinni Borgen sem nýbúið var að sýna og fjallaði um málefnið frá ýmsum hliðum.
Gísli varaði menn þó við að taka mark á þættinum sem hefði verði „fullur af vitleysum. Þið eigið frekar að horfa á Pretty Woman. Við teljum þó að kaup á vændi eigi að vera refsiverð eins og nú er komið.“