Ágúst Ármann látinn

agust_armann.jpgÁgúst Ármann Þorláksson, tónlistarmaður og fyrrverandi skólastjóri Tónskóla Neskaupstaðar, varð bráðkvaddur að heimili sínu í Neskaupstað mánudaginn 19. september, 61 árs að aldri. Hann hefur í áratugi verið einn af lykilmönnunum í austfirsku tónlistarlífi í áratugi.

 

Ágúst fæddist á Skorrastað í Norðfirði 23. febrúar 1950, Hann var sonur hjónanna Þorláks Friðrikssonar og Jóhönnu Ármann. Ágúst ólst upp á Eskifirði til sjö ára aldurs en flutti þá á Skorrastað ásamt foreldrum sínum. Haustið 1968 settist hann síðan að í Neskaupstað.

Að loknu tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík kenndi Ágúst Ármann í einn vetur á Akranesi en kom austur í Neskaupstað árið 1974. Þar kenndi hann til 1982, að undanskildu skólaárinu 1977-78 þegar hann var kennari í Njarðvík og organisti Njarðvíkurkirkju.

Frá 1982-2010 var Ágúst skólastjóri Tónskóla Neskaupstaðar og lengst af organisti Norðfjarðarkirkju og Mjóafjarðarkirkju. Í fyrra tók hann við starfi forstöðumanns Kirkju- og menningarmiðstöðvar Fjarðabyggðar en snéri sér aftur að kennslu í haust.

Ágúst Ármann hefur áratugum saman verið einn af lykilmönnum austfirsks tónlistarlífi. Hann var virkur kórstjórnandi, lék í danshljómsveitum og var meðal stofnenda Blús- rokk- og djassklúbbsins á Nesi (BRJÁN). Hann hlaut menningarverðlaun Sambands sveitarfélaga á Austurlandi árið 2007.

Ágúst Ármann var einnig virkur í félagsstörfum, starfaði lengi innan Þróttar og var formaður félagsins um hríð. Hann var einnig einn af hornsteinunum í vinabæjarsamstarfi Sandavágs í Færeyjum og Norðfjarðar.

Eftirlifandi eiginkona Ágústs er Sigrún Halldórsdóttir. Synir þeirra eru Halldór Friðrik, Bjarni Freyr og Þorlákur Ægir. Barnabörnin eru þrjú.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.