Gullgrafaraæði í uppsiglingu á Austurlandi?

Ástralska fyrirtækið Platina Resources Ltd. hefur sótt um leyfi til að leita að gulli og öðrum málmum á Austurlandi. Landeigendum um nær allt Austurland hefur verið sent bréf vegna málsins. Áhugaverðustu svæðin eru við Vopnafjörð, Borgarfjörð og Breiðdalsvík.

 

gulleitarsvaedi_web.jpg Ástralska fyrirtækið vill fá að skoða ríflega 6000 ferkílómetra svæði og biður um tveggja ára leyfi. Í bréfi fyrirtækisins segir að svæðið hafi verið valið því „fyrirsjáanlega megi finna þar jarðefnalög með gulli og öðrum tengdum ódýrum málum og einnig vegna þess að álitið er að staðurinn hafi ekki verið nægilega rannsakaður.“

Með ódýrari málum er vísað til kopars, blýs, silfurs og sink. Fyrirtækið segist aðeins horfa til svæða á landi í dreifbýli. Þrjú svæði eru sögð koma sérstaklega til greina en þau eru í grennd við Vopnafjörð, Breiðuvík við Borgarfjörð og Breiðdal. Þar hafa áður fundist merki um gull.

Tvö þúsund sýni

Platina ætlar að taka sýni úr botnlagi straumvatna. Þau verða síðan send til greiningar á rannsóknarstofu í Toronto í Kanada. Fyrirtækið ætlar sér að safna um tvö þúsund sýnum. Kostnaður við rannsóknina alla er áætlaður um 25 milljónir króna. Vinnuáætlun gildir fyrir fimmtíu daga.

„Ef rannsóknir bera árangur varðandi afmörkun áhugaverðra gullleitarsvæða er líklegt að Platina muni senda inn umsókn/ir vegna nýrra rannsóknarleyfa, sem ná yfir áhugaverðu svæðin, og sem gilda eiga til lengri tíma en tveggja ára.“

Íslenskir starfsmenn

Fyrirtækið ætlar að senda tvo þriggja manna starfshópa austur. „Í hvorum hópi eru tveir einstaklingar, annar þeirra jarðfræðingur og hinn aðstoðarmaður, undir verkstjórn fulltrúa frá Platina. Búist er við að allir starfsmenn (fyrir utan sjálfan mig) verði íslenskir, þar sem notast verður við jarðfræðinga frá ÍSOR og fengnir stúdentar frá Háskóla Íslands. Aðeins í þeim tilvikum þegar ekki verður hægt að fá starfsmenn með tilskilin réttindi frá Íslandi verður leitað til útlanda eftir starfsmönnum til vara,“ segir í bréfi undirrituðu af Tomas Abraham-James, forstöðumanni rannsókna hjá Platina.

Landeigendur fengu bréfið í vikunni og hafa frest til 9. júní til að gefa álit sitt en samkvæmt auðlindalögum geta þeir ekki hafnað rannsóknum á landi sínu. Platina heitir því að samráð verði haft við landráðendur áður en farið verði inn á þeirra svæði.

Platina var stofnað árið 2006 og er skráð á ástralskan verðbréfamarkað. Það er með fjögur rannsóknarverkefni í Ástralíu og tvö á Grænlandi. Tvö verkefnanna, eitt í hvoru landi, eru að komast á nýtingarstig. Íslensk fyrirtæki og starfsmenn, meðal annars Nesskip, Norlandair og Olís, hafa komið að verkefnum Platina á Grænlandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar