Gul viðvörun á Austurlandi í kvöld

Veðurstofa Íslands hefur sett á gula viðvörun fyrir Austurland en hún tekur gildi í kvöld. Búast má við að fjallvegir verða illfæri og truflunum á samgöngum í kvöld þegar þjónusta hættir. Einnig er varað við því að það gæti orðið nærri stórrstreymt vegna lágs loftþrýstings. 

 

„Það má búast má við norðanátt, svona 10-18 m/s og seint í kvöld og í nótt tekur að snjóa á heiðum, en talsverð slydda eða rigning verður á láglendi. Það verður skafrenningur og lélegt skyggni vegum. Þetta verður til trafala og það má alveg búast við samgöngutruflunum,“ segir Daníel Þorláksson veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Á vef Landhelgisgæslunnar er vakin athygli á hárri sjávarstöðu næstu daga. Þar segir að gert er ráð fyrir umhleypingasömu veðri með fremur lágum loftþrýstingi. Það má því gera ráð fyrir hærri sjávarstöðu en flóðspár gáfu til kynna.

„Við þetta má bæta að með þessari háu sjávarstöðu gæti orðið vindasamt og meiri úrkoma. Þetta verður þó ekkert eins og ofsaveðrið í desember en þó leiðinlegt og það er auðvitað skynsamlegt að fara varlega,“ segir Daníel. 

Hann bendir á að eins og kemur fram á heimsíðu Veðurstofunnar þá gildir viðvörun frá kvöldinu í kvöld fram á annað kvöld. 


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar