Gunnar Jónsson: Við komumst yfir þetta

gunnar_jnsson_bndi__egilsstum__vllum.jpg
Gunnar Jónsson, bóndi á Egilsstöðum á Völlum, segir það hafa verið mikið áfall þegar sjaldgæf herpesveira greindist í kúm á búi hans. Útlit er fyrir að lóga þurfi stórum hluta stofnsins á einu af stærstu kúabúum landsins. Gunnar og fjölskylda hans eru ákveðin í að reisa við búið eftir áfallið.

„Ég skal viðurkenna það að þetta var helvítis áfall. Mér leiðin djöfullega, ég varð bara aumur,“ segir Gunnar aðspurður um hvernig honum hafi liðið þegar honum var tilkynnt um að veiran hefði greinst í kúnum hans.

„Það er ekki eins og það hafi dáið maður en auðvitað bregður manni svakalega. Þetta er nú einu sinni ævistarfið sem liggur í þessu.“

Veiran óþekkt á Íslandi

Um miðjan síðasta mánuð bárust þau tíðindi eftir reglubundna sýnatöku að greinst hefði mótefni við smitandi barkabólgu/fósturláti í kúm á Egilsstaðabýlinu. Sjúkdómurinn hefur ekki áður greinst á Íslandi og finnst ekki á Norðurlöndunum í dag. 

Enn er óvíst um hvernig veiran barst á búið. Rannsóknir standa yfir á því en illa hefur gengið að finna veiruna sjálfa því hún er aðeins virk undir vissum kringumstæðum. Dularfull tilfelli sem þetta eru þekkt frá bæði Noregi og Danmörku.

Sjúkdómurinn er flokkaður í A-flokk búfjársjúkdóma sem hefur að geyma hættulegustu sjúkdómana. Við þeim hefur yfirleitt verið brugðist með að lóga öllum stofni þess bæjar þar sem veiran finnst. Ekki er víst að til svo harkalegra aðgerða verði gripið á Egilsstöðum en nær öruggt er að öllum þeim kúm sem reynst hafa jákvæðar í prófum verði slátrað.

„Þetta er ekkert skemmtilegt á sama tíma og börnin mín ætla að koma inn í búið með mér. Maður horfir fram á óvissu, afurðatjón og aukna vinnu. Þetta er ekki góð byrjun en við komumst yfir þetta,“ segir Gunnar.

Farga þarf afurðahæstu kúnum

Af sýktu gripunum eru allar kýr fæddar 2007 og fyrr. Aðeins hluti hinna yngri virðist hafa fengið veiruna í sig.

„Það að lóga þessum gripum er verulegt áfall fyrir framleiðslu búsins. Elstu kýrnar eru þær afurðahæstu. Það skiptir miklu máli hvernig okkur tekst að gripa upp skarðið. Við eigum töluvert af kálffullum kvígum.

Þetta snýst um tíma, til dæmis hversu langan tíma tekur að átta sig á að kálfarnir séu hreinir. Ef það tekur ekki mjög langan tíma að halda eftir hluta stofnsins þá held ég að menn fari þá leið. Menn verða hins vegar að geta eytt allri tortryggni og geta búið án þess að vera nánast eins og í sóttkví.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar