Gunnar Viðar efstur hjá Lýðræðisflokknum
Gunnar Viðar Þórarinsson, framkvæmdastjóri á Reyðarfirði, skipar efsta sætið á lista Lýðræðisflokksins í Norðausturkjördæmi í komandi Alþingiskosningum.Flokkurinn kynnti í morgun þrjá efstu frambjóðendur á listum sínum í hverju kjördæmi. Um er að ræða nýtt framboð stofnað af Arnari Þór Jónssyni, lögmanni og fyrrum varaþingmanni Sjálfstæðisflokksins. Hann bauð sig fram til forseta Íslands í sumar.
Gunnar Viðar er þekktastur úr sjoppurekstri þar sem hann hefur tekið við fyrrum þjónustustöðvum olíufélaganna, til að mynda Orkunnar á Reyðarfirði og Olís í Fellabæ. Hann rekur nú tíu sjoppur víða um landið. Þá hefur hann einnig komið að gistirekstri á Reyðarfirði.
Í öðru sæti er Helga Dögg Sverrisdóttir, kennari og sjúkraliði og því þriðja Bergvin Bessason, blikksmiður. Þau koma bæði frá Akureyri.
Von er á að framboðslistar í kjördæminu skýrist einn af öðrum á næstu dögum. Til þessa hefur aðeins Sjálfstæðisflokkurinn birt fullmannaðan lista sinn. Framsóknarflokkur, Vinstrihreyfingin - grænt framboð og Samfylkingin hafa öll boðað fundi á laugardag þar sem tillögur uppstillinganefnda verða bornar fram til samþykktar.