Gunnar Viðar efstur hjá Lýðræðisflokknum

Gunnar Viðar Þórarinsson, framkvæmdastjóri á Reyðarfirði, skipar efsta sætið á lista Lýðræðisflokksins í Norðausturkjördæmi í komandi Alþingiskosningum.

Flokkurinn kynnti í morgun þrjá efstu frambjóðendur á listum sínum í hverju kjördæmi. Um er að ræða nýtt framboð stofnað af Arnari Þór Jónssyni, lögmanni og fyrrum varaþingmanni Sjálfstæðisflokksins. Hann bauð sig fram til forseta Íslands í sumar.

Gunnar Viðar er þekktastur úr sjoppurekstri þar sem hann hefur tekið við fyrrum þjónustustöðvum olíufélaganna, til að mynda Orkunnar á Reyðarfirði og Olís í Fellabæ. Hann rekur nú tíu sjoppur víða um landið. Þá hefur hann einnig komið að gistirekstri á Reyðarfirði.

Í öðru sæti er Helga Dögg Sverrisdóttir, kennari og sjúkraliði og því þriðja Bergvin Bessason, blikksmiður. Þau koma bæði frá Akureyri.

Von er á að framboðslistar í kjördæminu skýrist einn af öðrum á næstu dögum. Til þessa hefur aðeins Sjálfstæðisflokkurinn birt fullmannaðan lista sinn. Framsóknarflokkur, Vinstrihreyfingin - grænt framboð og Samfylkingin hafa öll boðað fundi á laugardag þar sem tillögur uppstillinganefnda verða bornar fram til samþykktar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.