Hægt að ráða í forna leikfangadýrið í þrívídd
Fornleifafræðingarnir, sem starfa við uppgröftinn á landnámsbænum Firði í Seyðisfirði, hafa gert þrívíddarlíkan af dularfullu leikfangadýri frá landnámsöld sem fannst þar í byrjun síðustu viku.Leikfangið hefur vakið mikla athygli því netverjar deila um hvaða dýr sé um að ræða. Í samtali við Austurfrétt í síðustu viku sagði dr. Ragnheiður Traustadóttir, sem stýrir uppgreftrinum, að hópurinn teldi um björn eða svín að ræða.
Margir hafa hins vegar hallast að því að leikfangið sé eftirgerð af hundi. Ragnheiður sagðist skilja þá ályktun af myndum en þegar leikfangið væri handleikið fyndist það væri líklega ekki af hundi.
Antivka, sem sér um uppgröftinn, hefur í samvinnu við sérfræðinga NIKU, norsku minjastofnunarinnar, gert þrívíddarlíkan af dýrinu sem aðgengilegt er á vef NIKU. Þar má snúa leikfanginu á alla kanta til að skoða það ofan frá og neðan. Þar má einnig skoða fleiri gripi frá Firði í þrívídd.
Það er tálgað úr gjóskubergi og er 5 sm. langt og 2,7 sm. á breidd. Það fannst í gólfi skála sem talinn er hafa verið í notkun milli áranna 940-1000.
Ljósmynd: Antikva