Hæsti styrkurinn í Stuðlagil á Jökuldal
Uppbygging í kringum Stuðlagil á Jökuldal fékk hæsta styrkinn af austfirskum verkefnum þegar úthlutað var úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða nýverið. Alls fengu fjögur austfirsk verkefni styrki. Tíu verkefni að auki eru í verkefnaáætlun um uppbyggingu innviða og verndun náttúru til næstu þriggja ára.Veitt er rúmum 26 milljónum króna til Stuðlagilsins sem ætlað er að vernda náttúru og tryggja öryggi gesta. Umferðin um staðinn hefur aukist hratt á síðustu árum en staðurinn hefur einkum spurst út á samfélagsmiðlum.
Framkvæmdir í fyrra voru styrktar úr sjóðnum og voru þá lagðir göngustígar en umferð er þó meiri en gert var ráð fyrir og jarðvegurinn sömuleiðis verr farinn. Eins þarf að tryggja öryggi ferðamanna með að koma upp pöllum við klettabrún.
Tæpum 16 milljónum er veitt til Seyðisfjarðarkaupstaðar til að bæta gönguleiðir milli Austdals og Skálaness. Leiðin hefur látið nokkuð á sjá síðustu ár.
Fljótsdalshérað fær rúmar 12 milljónir til að laga göngustíg við gljúfrin á Magnahelli og laga aðstöðu við Hafrahvammagljúfur. Eins verður afmarkað nýtt bílastæði milli Laugavalla og Hafrahvammagljúfurs og sett þar upp upplýsingaskilti.
Þá fær Ferðafélag Fljótsdalshérað 1,7 milljónir til að setja upp nýtt vatnsból við skála félagsins í Breiðuvík, milli Borgarfjarðar og Seyðisfjarðar.
Úr sérstakri áætlun um verndun náttúru og menningarsögulegum minjum fá fimm verkefni á Austurlandi úthlutað fjármagni í ár. Fimm önnur vilyrði um fjármagn á næstu tveimur árum.
Hæsti styrkurinn í ár, 15 milljónir, rennur til Vatnajökulsþjóðgarðs til gerðar göngubrúar og stíga yfir ána Blöndu við Geldingafell. Fimm milljónir fara til uppbyggingar þjónustuhúss að Teigarhorni í Berufirði nú en 59 milljónir eru ætlaðar þangað á næstu tveimur árum.
Þá fara um 1,5 milljónir á hverjum stað í hönnun þjónustuhúss í Hallormsstaðarskóg, merkingar og verndaraðgerðir á Hólmanesi og merkingar og girðingar við önnur náttúruvætti undir umsjá Umhverfisstofnunar.
Af verkefnum næstu tveggja ára má nefna uppbyggingu við Hengifoss, þurrsalerni í Krepputungu, lagfæring á Fjárborg í Mjóafirði, endurbætur umhverfis Galtastaða og Djáknadysjar í Hamarsfirði
Að endingu má nefna að tvö friðlýst svæði á Austurlandi eru talin til sérstakrar skoðunar, en þar undir eru svæði þar sem til stendur að auka landvörslu. Þau eru Blábjörg og Helgustaðanáma.
Stuðlagilið á Jökuldal. Mynd: Sigurður Aðalsteinsson