Hæstiréttur hafnaði beiðni um áfrýjun í hnífsstungumáli
Hæstiréttur Íslands hefur hafnað beiðni Sigurðar Sigurðarsonar um að taka fyrir mál hans. Tíu ára fangelsisdómur Landsréttar yfir honum fyrir lífshættulega árása á annan mann með hnífi hefur því verið staðfestur.Atvikið átti sér stað í Neskaupstað sumarið 2019. Sigurður fór inn á heimili mannsins og stakk hann nokkrum sinnum með tveimur hnífum, meðal annars í háls, með þeim afleiðingum að fórnarlambið fékk lífshættulega áverka.
Sigurður var handtekinn á leið af vettvangi og dæmdur í gæsluvarðhald daginn eftir. Héraðsdómur Austurlands dæmdi hann skömmu fyrir jól í sex ára fangelsi en Landsréttur þyngdi refsinguna í tíu ár í sumar.
Sigurður áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar með þeim rökum að verulegir ágallar hefðu verið á meðferð málsins. Þannig hefði myndbandsupptaka af skýrslugjöf fórnarlambsins við aðalmeðferð málsins í héraðsdómi ekki legið fyrir í Landsrétti og því hefði verið ómögulegt fyrir dóminn að meta samræmi í framborði fórnarlambsins milli dómsstiga. Þá hélt Sigurður því fram að refsingin hans væri of þung í samanburði við dómafordæmi.
Samkvæmt lögum um meðferð sakamála er hægt að áfrýja dómum Landsréttar til Hæstaréttar hafi dómur annað hvort verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum sökum að fá dóminn endurskoðaðan. Hæstiréttur taldi hvorki það né önnur rök sem Sigurður lagði fram fyrir áfrýjunarbeiðninni eiga við og hafnaði því áfrýjunarbeiðninni sem þýðir að dómur Landsréttar um 10 ára fangelsi stendur.