Hæstiréttur staðfestir ákvörðun um nálgunarbann

Hæstiréttur Íslands hefur staðfest nálgunarbann gagnvart karlmanni á Breiðdalsvík sem gefið er að sök sakaður er að hafa ógnað 13 ára dreng. Rökstuddur grunur er talinn um sjö tilvik þar sem maðurinn hafi raskað friði drengsins.


Hæstiréttur staðfesti í dag vikugamlan úrskurð héraðsdóms Austurlands sem um leið er birtur í heild. Lögreglustjórinn á Austurlandi úrskurðaði manninn upphaflega í fjögurra mánaða nálgunarbann, að beiðni lögmanns fjölskyldu drengsins, en héraðsdómur stytti bannið í tvo þar sem maðurinn hyggst flytja úr landi 1. nóvember.

Í úrskurðinum er lýst ellefu tilvikum sem skráð eru í málaskrárkerfi lögreglu og áttu sér stað frá mars 2005 fram til 12. ágúst síðastliðins.

Þann dag hafði vegfarandi samband við lögreglu eftir að hafa séð fullorðinn mann hjóla á eftir dreng. Drengurinn hafði reynt að hlaupa undan en maðurinn hjólað í veg fyrir drenginn og greinilega ætlað að hræða hann. Haft er eftir vitninu að það þekki ekki til deilnanna og vilji ekki blanda sér í þær en hafi blöskrað framkoma mannsins.

Fyrr sama dag hafði kona mannsins hringt í lögreglu og tilkynnt að keyrt hefði verið á mann sinn.

Daginn áður hafði lögregla rætt við manninn. Eftir þetta atvik þótti sýnt að hann léti ekki af háttsemi sinni þrátt fyrir áskoranir lögreglu. Drengnum stafi ógn af manninum og friðhelgi hans yrði ekki varðveitt með vægari aðferðum.

Tókust á fyrir tveimur árum

Foreldrar drengsins tilkynntu fyrst um samskipti mannsins og drengsins í lok apríl 2016 en haustið 2015 hafði eiginkona hans kært föður drengsins til lögreglu fyrir hótanir. Málið var fellt niður þar sem það þótti ekki líklegt til að leiða til sakfellingar.

Deilurnar höfðu byrjað þá um haustið. Maðurinn sakaði drenginn um eignaspjöll og lygar þegar hann neitaði ásökununum. Maðurinn segir strákinn hafa brjálast og komið til átaka. Hann hafi varnað því að drengurinn, þá 11 ára gamall, færi og „óvart slegið hann flötum lófa“ þegar hann reyndi að bíta hann.

Hræddi drenginn

Fimm atvik eru tilgreind frá árinu 2016, að maðurinn hafi hrint stráknum í sundlaug, rekið hann út af opinberum stað, varnað honum leið þar sem hann var á göngu með frænku sinni, ýtt við honum er þeir mættust á stíg og lagt hönd á hjól hans þannig að drengurinn varð sýnilega hræddur.

Maðurinn hefur gefið skýringar á þremur atvikanna og vitni voru að tveimur þeirra. Hann neitar að hafa hrint stráknum í sundlaug. Engin vitni voru að því atviki en haft er eftir vitni að strákurinn hafi á staðnum verið sýnilega hræddur við manninn. Eins neitar maðurinn að hafa rekið drenginn út af opinberum stað.

Fjögur tilvik eru skráð á þessu ári. Að maðurinn hafi fell drenginn í jörðina, hrakið drengin og vin hans á brott þegar þeir voru að leika sér með golfkylfur, veitt honum eftirför þar sem hann var á göngu með hund sinn og hreytt í hann ónotum í sundlaug.

Maðurinn neitar aftur atvikinu í sundlauginni og að hafa fellt drenginn í jörðina. Í hinum tilvikunum segist hann hafa verið að vernda fjölskyldu sína. Vitni voru að þeim atvikum.

Ekki sýnt af sér aðgætni í samskiptum við börn

Í úrskurði héraðsdóms segir að ekki sé dregið í efa að honum hafi gengið það eitt til að verja fjölskyldu sína og eignir en það leysi hann ekki undan skyldum fullorðinna við börn. Rökstuddur grunur sé að í sjö tilfellum hafi maðurinn haft afskipti af drengnum sem raskað hafi friði hans. Ljóst sé að maðurinn hafi á köflum ekki sýnt að sér þá aðgætni í samskiptum sem almennt verði ætlast til í samskiptum við börn.

Rannsóknargögn renni stoðum undir að ástæða sé til að óttast að maðurinn haldi áfram uppteknum hætti. Vandséð sé að önnur og vægari úrræði séu en tiltæk en nálgunarbann. Barnið eigi að njóta vafans.

Í tilkynningu sem kona mannsins sendi frá sér fyrir helgi hélt því hún fram að ásakanir drengsins væru upplognar. Þar sakar hún enn fremur bæði drenginn og foreldra hans um hótanir og óviðeigandi framkomu í garð fjölskyldu sinnar.

Í málsvörn eiginmanns hennar lýsir hann að hann telji drenginn glíma við verulegan hegðunarvanda sem valdi þess að hann eigi ekki annars úrkosta en að verja börn sín, eiginkonu, heimili og eignir. Dómurinn áminnir hann um að enn ríkari þörf sé á aðgætni séu fullyrðingarnar um hegðunarvanda sannar.

Ekki var fallist á nálgunarbann sem lögmaður fjölskyldunnar fór fram á gagnvart eiginkonunni.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.