Hætt við hluta af Lundúnafluginu: Tímabundið bakslag

Einungis verður floginn fjórðungur þeirra ferða sem til stóð að fara milli Lundúna og Egilsstaða á vegum bresku ferðaskrifstofunnar Discover the World. Eigandi ferðaskrifstofunnar segir að lengri tíma taki að markaðssetja Austurland heldur en ráð var fyrir gert.


Til stóð að fljúga laugardag og miðvikudaga frá 28. maí fram til 24. september, eða alls 35 flug fram og til baka. Flugin verða ekki nema níu. Hið fyrsta 9. júlí og það síðasta 20. ágúst. Flogið verður á laugardögum auk miðvikudaganna 13. júlí og 10. ágúst.

„Þetta er virkilega svekkjandi. Þetta var það síðasta sem við vildum en við gátum ekki annað því bókanir stóðu engan vegin undir væntingum,“ sagði Clive Stacey, eigandi Discover the World í samtali við Austurfrétt í dag.

Salan til dagsins í dag í flugin 26 sem felld eru niður jafngiltu tveimur fullum vélum. Discover the World ábyrgist flugferðir þeirra sem höfðu þegar bókað en þeim verður flogið til Keflavíkur og þaðan áfram frá Reykjavík með Flugfélagi Íslands og öfugt.

Í yfirlýsingu frá Discover the World segir að mestur áhugi virðist hafa verið á júlí og ágúst. „Það er öruggt að þessu níu flug verða flogin óháð hvað selst í þau. Því verður um níu fleiri millilandaflug að ræða um Egilsstaðaflugvöll að ræða en verið hefur,“ segir Clive.

Tímaspursmál hvenær Austurland slær í gegn

Í yfirlýsingunni kemur fram að verulegur áhugi sé fyrir Íslandsferðum á Bretlandsmarkaði og sala Discover the World hafi aukist um 45% frá því í fyrra. Slíka aukningu hafi skrifstofan ekki séð áður í ferðunum. Tíu flugleiðir liggi til Keflavíkur en aðeins ein til Egilsstaða og við það hafi reynst erfitt að keppa.

„Vandamálið er að Austurland er ekki þekkt. Flestar myndir sem þeir sem markaðssetja Ísland birta sýna þekkta staði eins og Gullfoss, Geysi og Bláa lónið. Flestir ferðalangar vilja því heimsækja þessa staði,“ sagði Clive.

Nokkrir breskir blaðamenn höfðu heimsótt Austurland og skrifað lofsamlega um svæðið. „Allir blaðamennirnir sem við sendum komu yfir sig hrifnir til baka. Það er bara tímaspursmál hvenær fleiri átta sig á Austurlandi.

Við lögðum í mikla markaðssetningu sem tókst að vissu marki en hún þarf lengri tíma en við reiknuðum með.“

Alltaf hafi verið ljóst að töluverð áhætta væri fólgin í fluginu og sætaframboðið fyrsta árið verið „metnaðarfullt.“ Í samtali við Austurfrétt hrósaði Clive íslensku samstarfsaðilunum, svo sem Austurbrú, Tanna Travel og Fjallasýn sem hafa markaðssett flugið hérlendis. „Það var frábært að vinna með þessum aðilum og við vonumst til að geta gert það áfram.“

Salan á Íslandi stóð heldur ekki undir væntingum. „Þær dugðu ekki til að hjálpa til,“ segir Clive og bendir á að lykilfyrirtæki á Austurlandi hafi lent í ágjöf síðustu misseri, til dæmis vegna innflutningsbanns Rússa. „Þetta er engum að kenna. Aðstæður eru svona.“

Tímabundið bakslag

Í yfirlýsingu Discover the World segir að aðeins sé um „tímabundið bakslag“ að ræða. Norður- og Austurland bjóði upp á mikla fjölbreytni og byggt verði á reynslunni.

Í samtali við Austurfrétt sagði Clive að flugið í sumar eigi eftir að gefa verðmætar upplýsingar. „Við viljum gjarnan koma á flugi um Egilsstaði og efla ferðaþjónustuna á Austurlandi. Í lok sumars verðum við komin með dýrmætar upplýsingar og vonumst þá eftir að geta fundað með ríkisvaldinu og stærstu fyrirtækjunum sem kynna Ísland til að finna leið.“

Nefnd á vegum forsætisráðherra lagði til að sjóður yrði stofnaður til að styðja við millilandaflug um aðra velli en Keflavík. Vonast var eftir 300 milljónum en útlit er fyrir að þær verði ekki nema 170 í ár. Clive segir það engin hafa áhrif hafa haft á flug Disvocer the World.

„Við fórum af stað án þess að reikna með styrkjum og vitum ekki hvort við hefðum uppfyllt skilyrðin fyrir þeim en þetta er eitt af því sem við viljum ræða við ríkið í haust.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.