Hætt við rafmagnstruflunum á morgun

Hætta er á að truflanir verði á rafmagni á Austurlandi á morgun, gangi spár um bálhvassa norðanátt og mikla úrkomu eftir.

„Við höfum áhyggjur af veðurspánni og búum okkur undir að það verði raforkuleysi.

Við erum að gera ráðstafanir eins og að tryggja að þær dísilvélar sem við eigum séu í lagi og allur mannskapur sé tiltækur á réttum stöðum,“ segir Finnur Freyr Magnússon, deildarstjóri netreksturs á Austurlandi hjá Rarik.

Búist er við að hiti verði um frostmark á láglendi og geti úrkoman ýmist fallið sem rigning, slydda eða snjór. Til fjalla má búast við mikilli snjókomu. „Það er helst ísingin sem við höfum áhyggjur af. Ef það hleðst á línurnar og er hvasst um leið getur orðið tjón á þeim.“

Talsverðar rafmagnstruflanir hafa verið á Vestfjörðum og Norðurlandi í dag. Byggðalínan hefur þó haldist í rekstri og því hafa truflanir ekki enn komið fram á Austurlandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar